Sækist eftir 3. sæti í Suðurkjördæmi

  Í dag sendi ég frá mér fréttatilkynningu þar sem ég tilkynnti þátttöku mína í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, þar sem ég sækist eftir stuðningi í 3. sætið.

Kallað hefur verið eftir uppstokkun og endurnýjun í forystusveit á framboðslistum. Það er kallað eftir fólki sem er tilbúið að takast á við þau krefjandi verkefni sem bíða. Fólki sem hefur reynslu og þor til að taka erfiðar ákvarðanir. Fólki sem vill að gera upp við fortíðina og horfast í augu við þau mistök sem gerð hafa verið, viðurkenna þau og læra af þeim. Fólki sem er tilbúið að takast á við þau brýnu úrlausnarefni sem bíða og taka slaginn í þeirri varnarbaráttu sem framundan er. Fólki sem er tilbúið að sækja fram á veg og nýta þau fjölmörgu tækifæri sem eru til sóknar. Fólki sem vill endurbyggja réttlátt og traust samfélag á grunni lýðræðis og ábyrgs frelsins til orðs og athafna.

Ég er 48 ára Vestmannaeyingur en hef verið búsettur á Selfossi undanfarin ár. Ég er baráttumaður og hef víðtæka reynslu á mörgum sviðum sem nýtast mun vel til að takast á við þau krefjandi verkefni sem bíða. Ég hef starfað sem sjómaður, kennari, blaðamaður, verkefnastjóri í skipasmíðum og síðustu árin hef ég verið framkvæmdastjóri Atlas hf. Þá hef ég m.a. starfað að sveitarstjórnarmálum og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á þeim vetvangi.

Ég legg áherslu á að brýnasta verkefnið sé að tryggja hag heimila og fjölskyldna í landinu sem og rekstrargrundvöll fyrirtækja. Taka þarf á skuldastöðu heimilanna og koma með raunhæfar lausnir í þeim efnum. Vextir verða að lækka mjög hratt og bankastarfsemi að komast í eðlilegt horf enda er það grundvöllur þess að hjól atvinnulífsins geti snúist og gjaldeyrishöftum verði að létta eins fljótt og mögulegt er.

Ég legg áherslu á að hagur atvinnulífs og heimila fari saman því blómlegt atvinnulíf sé forsenda hagsældar heimilanna.

Þá legg ég áherslu á að verja grunnstoðir þjóðfélagsins svo sem, heilbrigðisþjónustu, samgöngur og löggæslu.

Ég legg áherslu á að standa vörð um grunn atvinnuvegina og skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda landsins enda er nýting þeirra, og hvers konar framleiðsla til útflutnings og gjaldeyrissköpunar, forsenda þeirrar uppbyggingar sem hér þarf að verða á næstu árum.

Ég legg áherslu á að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að rækta betur grunngildi sín og sambandið við grasrótina í þjóðfélaginu. Fólk úr öllum stéttum og öllum þjóðfélagsstigum hefur í 80 ár fundið skoðunum sínum og hugsjónum samleið með stefnu Sjálfstæðisflokksins, sem alltaf hefur byggt á frelsi einstaklingsins til orðs og æðis. Þess vegna hefur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf verið og er enn sú mikla fjöldahreyfing sem raun ber vitni. Sú stefna sem flokkurinn byggri á hefur leitt þjóðina til góðs gegnum árin en rétt er að minna á að öllu frelsi fylgi ábyrgð og að það getur aldrei orðið ótakmarkað. Allt frelsi þarf að vera innan eðlilegs ramma laga og regla í þjóðfélaginu. Þann ramma þarf að endurskoða til þess að tryggja að aldrei framar verði það mögulegt að óábyrg meðferð frelsisins geti orðið til að setja skuldaklafa á íslenska þjóð.

 


Eru breytingar á stjórnarskrá og kosningalöggjöf brýnustu verkefnin?

Dettur einhverjum heilvita skipstjóra í hug að láta áhöfnina fara að skúra messann, í stað þess að koma vélinni í gang, ef skipið er vélarvana í ölduróti?

Það er dapurlegt að fylgjast með hvernig reynt er að nota ástandið sem skapast hefur hér, í kjölfar efnahagshrunsins, til að gera byltingar á innviðum samfélagsins. Það er hrópað á umbyltingu stjórnarskrárinnar og umbyltingu á kosningalöggjöfinni. Breytingar á þessum grunnþáttum eru settar í forgang sem nauðsynlegustu aðgerðir sem ráðast þarf í til að rétta af þjóðaskútuna eftir efnahagshrunið.

Hvurslags vitleysa er í gangi? Við höfum notast við þessa stjórnarskrá áratugum saman og verið nokkuð sæl með okkur. Hér hefur verið byggt upp samfélag, sem þróaðist reyndar á miklum hraða frá eymd og vesæld til velsældar, og það eru ekki margir mánuðir síðan allir töldu að íslenskt samfélag væri eitt það allra besta í heimi. Við höfum byggt upp þetta samfélag okkar upp á grundvelli þeirrar stjórnarskrár sem við höfum í dag og það er algjör fásinna að ætla að kenna stjórnarskránni um efnahagshrunið.

Hitt er svo aftur annað mál að það er sjálfsagt að endurskoða stjórnarskránna. Það á að gera á yfirvegaðan hátt en ekki kasta til þess höndum. Það verk er samt sem áður á engann hátt brýnasta verkefnið sem þarf að ráðast í við þær efnahagsaðstæður sem uppi eru í dag.

Það er heldur ekki kosningalöggjöfinni að kenna að hér varð efnahagshrun og því leysir það ekki þann vanda sem við erum í, að rjúka til og eyða tímanum nú til að umbylta henni þó að sjálfsagt sé að endurskoða hana einnig, en á yfirvegaðan hátt eins og stjórnarskránna.

Þarf raunhæfar aðgerðir en ekki líknarmeðferð eða skammtalækningar

Stjórnvöld eiga strax að hætta að eyða dýrmætum tíma í umræður um stjórnarskrárbreytingar eða breytingar á kosningalöggjöf og snúa sér að þeim verkefnum sem brýnni eru. Skuldsett heimili og fyrirtæki eru að sligast og lítið bólar á úrræðum sem duga til bjargar þeim.

Það er ekki þörf á líknandi gjaldþrotameðferð eins og frumvarp hefur verið lagt fram um. Það er jafngott fyrir þá sem eru að verða gjaldþrota að horfast í augu við það strax í stað þess að lengja örlítið í snörunni þannig að gjaldþrotið verði ekki að veruleika fyrr en síðar á árinu, þ.e.a.s. eftir kosningar, eins og virist vera megin markmið stjórnvalda. Enginn er bættari með það.

Það þarf raunhæfar aðgerðir til úrbóta en ekki einhverjar skammtalækningar til að draga úr kvölunum.

Stjórnmálamenn verða að hafa þor til að taka erfiðar ákvarðanir

Stjórnmálamenn verða að hafa þor til að taka umræðu um erfið mál og taka erfiðar ákvarðanir, þó að kosningar séu framundan. Þeir eiga að hafa þor til að segja sannleikann og það er ekki trúverðugt af frambjóðendum að ætla að vera í gerfi jólasveinsins með fullan poka af loforðapökkum um stórframkvæmdir og fjárveitingar.

Fólkið í landinu vill skýr skilaboð. Það vill vita hver staðan er, hverjir möguleikarnir eru og hvaða björgunartæki þarf að nota til að koma okkur til lands úr efnahagsháskanum. Við eigum einhverja björgunarbáta sem setja má á flot, eins og t.d. lífeyrissjóðina, og stjórnmálamenn verða að hafa dug og þor til að taka umræðu um slíkar mögulegar björgunaraðgerðir fyrir kosningar, en ekki fresta þeim fram yfir þær.

Ekki brýnast að skúra messann ef skipið er vélarvana í öldurótinu

Almennilegum skipstjóra eða öðrum yfirmönnum á skipi dytti ekki til hugar að láta áhöfnina fara að skúra messann ef að skipið væri vélarvana í ölduróti og brimsköflum. Það yrði gefin skipun um að ganga til verka við að koma vélinni á gang, væri þess nokkur kostur, eða að grípa til annarra þeirra aðgerða sem dygðu til að bjargar mannskapnum.

Það sama á að eiga við um íslensku þjóðaskútuna. Hún velkist nú um, vélarvana, í ölduróti og brimsköflum, en í stað þess að láta áhöfnina vinna með samstilltu átaki að því að koma vélinni í gang á ný er meira hugsað um að láta áhöfnina skúra messann. Breytingar á stjórnarskrá og kosningalögum eru settar í forgang í stað þess að taka á því sem raunverulega þarf. Björgun heimila og fyrirtækja.

Ég myndi reka skipstjóra og aðra yfirmenn á skipi sem ég ætti yrðu þeir uppvísir að slíku verklagi.

Kjósendur velja yfirmenn á skútuna í komandi prófkjörum

Í komandi kosningum þarf að kalla til verka fólk sem þorir að takast á við þann vanda sem bíður. Fólk sem hefur reynslu og þor til takast á við þau erfiðu verkefni sem bíða. Fólk sem þorir að segja almenningi í landinu satt um hver staðan er. Fólk sem einbeitir sér að því að koma vélinni í gang á ný og nota þau björgunartæki sem duga til að koma okkur öllum heilum í höfn.

Það er í höndum kjósenda í landinu að velja yfirmenn í áhöfn á skútunar sem við öll siglum á. Yfirmenn sem þeir treysta að hafi það baráttuþrek og þor sem þarf í þeim átökum sem framundan eru við að sigla skútunni heilli til hafnar. Það val fer fram í þeim prófkjörum sem eru á næsta leiti.

 

 


Mikilvægast að verja þá grunnþjónustuna sem er til staðar

Það hafa orðið ótrúlegar breytingar hér á landi á skömmkum tíma. Efnahagshrunið og afleiðingar þess hafa vakið fólk til umhugsunar og breytt gildismati. Ljóst er að erfiðir mánuðir eru framundan og það mun þrengja að fólki en í öllum þrengingum felast einnig færi til sóknar.

Kreppa á landsbyggðinni í mörg ár

Efnahagskreppan hefur ekki enn haft sömu áhrif víða á landsbyggðinni eins og á höfuðborgarsvæðinu og er það ekki undarlegt því að víðast hvar í hinum dreifðu byggðum hefur verið kreppa í mörg ár, sem hvað skýrast hefur komið fram í fólksfækkun þar, meðan bullandi þennsla og fjölgun var á höfuðborgarsvæðinu. Góðæri sem í raun var sýndarveruleiki sem nú er horfinn.

Í Vestmannaeyjum hefur fólk alltaf byggt, og mun alltaf byggja, afkomu sína á verðmætasköpun úr hafinu. Auðlindinni sem er og verður ein af megin stoðum íslensks samfélags og sveiflur í afkomu sjávarútvegs hafa fljótt bein áhrif á afkomuna í Eyjum.

Þrátt fyrir að íbúar landsbyggðarinnar hafa verið litlir þátttakendur í þeirri miklu þennslu sem ríkt hefur í þjóðfélaginu þá mun það ekki síst bitna á þeim að koma þjóðfélaginu úr þeim efnahagsvanda sem Íslendingar eru í, því að tekjubrunnurinn til skuldaskila felst í nýtingu auðlindanna og framleiðslu til útflutnings. Við eigum því að nýta okkur þau tækifæri sem nú geta skapast til uppbyggingar og eflingar samfélagsins í Eyjum.

Mikilvægast að verja heimilin, atvinnulífið og grunnstoðir samfélagsins

Kosningar eru í nánd og þá er algengt að loforðaflaumur framkvæmda og verka sé dreginn á flot af frambjóðendum og hver í kapp við annan reynir að skreyta sig fjöðrum, sem því miður eru alloft stolnar. Við þær aðstæður sem uppi eru nú er slíkur málflutningur óábyrgur og ótrúverðugur. Við verðum að horfast í augu við stöðuna eins og hún er og vinna úr henni eins vel og mögulegt er.

Megin verkefnið í fyrstu er að tryggja hag heimilanna og finna leiðir til aðstoðar fólki sem er að kafna í skuldaklafa vegna óðaverðbólgu og gengishruns. Samhliða því þarf að tryggja að fyrirtæki fái nauðsynlega fyrirgreiðslu til að halda þeim gangandi en því miður er bankakerfi landsins en höktandi og varla fært til þess.

Verja þarf að grunnþjónusta, s.s. heilbrigðisþjónusta, verði ekki skert og tryggja þarf öflugar og góðar samgöngur. Það er sjálfsagt að leita leiða til sparnaðar á öllum sviðum en í þeim efnum verður að fara skynsamlegar leiðir.

Nú er tækifæri og tími til breytinga

Traust heilbrigðisþjónusta og öflugar samgöngur eru nauðsynlegar grunnstoðir kröftugs samfélags í Eyjum. Þær grunnstoðir þarf því að verja. Það eru sóknarfæri í Eyjum og verði rétt haldið á málum munu Vestmannaeyjar og aðrir álíka staðir á landsbyggðinni verða fyrstir til að keyra upp úr kreppunni.

Nú er tækifærið og tíminn til breytinga. Stöndum saman og nýtum möguleikann sem við höfum til nýrrar sóknar með raunhæf markmið í farteskinu.

 


ASÍ í bullandi pólitík

Það vekur sífellt meiri undrun hvernig nýr forseti og forysta Alþýðusambands Íslands, ASÍ, hefur náð að gera þessi launþegasamtök að mun pólitískara verkfæri en verið hefur um langa hríð. Hver yfirlýsingin á fætur annarri hefur komið frá forystu ASÍ síðustu vikurnar þar sem samtökin eru að blanda sér í pólitíska baráttu. sem í raun ekkert hefur með hag umbjóðendanna að gera.

ASÍ hafði engar áhyggjur af ástandinu á alþingi og pólitískum upphlaupum minnihlutans í tíð síðustu ríkisstjórnar, þó að þingið væri nánast á hvolfi vegna uppþota þar og lítill vinnufriður en nú senda þeir frá sér yfirlýsingu þar sem þeir eru greinilega að senda stjórnarandstöðunni tóninn og ætlast til þess að hún haldi að sér höndum.

Innan ASÍ er fók úr öllum stjórnmálaflokkum og með mismunandi pólitískar skoðanir. ASÍ eru launþegasamtök sem eiga að einbeita sér að því að verja kjör og hagsmuni umbjóðenda sinna. Samtökin eiga ekki að skipa sér á pólitískan bekk heldur berjast fyrir sitt fólk án tillits til þess hvernig pólitískt landslag er hverju sinni. Það á alls ekki að ráða afstöðu ASÍ hverjir sitja í ríkisstjórn því markmiðið á alltaf að vera eitt og það sama að berjast fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna.

Því miður vantar mikið upp á að núverandi forysta samtakanna hafi rækt það hlutverk sitt á hlutlausan hátt.

 


mbl.is Þingmenn sýna þjóðinni lítilsvirðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú vill kappinn fjölmiðlalöggjöf - Er þetta ekki hjákátlegt?

Datt um þetta gullkorn í grein sem Róbert Marshall skrifaði í Fréttir í Vestmannaeyjum í síðustu viku: "Við viljum opna, frjálsa og lýðræðislega umfjöllun og til þess þurfum við öfluga fjölmiðla sem almenningur treystir. Það er hægt að gera með fjölmiðlalöggjöf sem tryggir dreifða eignaraðild og sjálfstæði ritstjórna. Nú er kjörið tækifæri til þess að setja slíka löggjöf án þess að ógna störfum og rekstri fjölmiðlafyrirtækja."

Merkilegt að lesa þetta. Ég man ekki betur en að fjölmiðlungarnir, Samfylkingin, VG og hluti þjóðarinnar hafi risið upp á afturlappirnar og mótmælt hástöfum þegar fjölmiðlafrumvarpið kom fram forðum, en það hafði einmitt það að markmiði að koma í veg fyrir að fjölmiðlum gæti verið stjórnað af fámennum hópi auðmanna. Forsetinn setti svo jarðarberið á topp þvælunnar með því að neita að skrifa undir lögin. sem þá um leið tryggði vald auðmanna yfir fjölmiðlunum. 

Hvaða hagsmuni voru fjölmiðlungar og vinstrimenn að verja þegar þeir tóku slaginn um fjölmiðlafrumvarpið? Það vöru örugglega ekki hagsmunir þjóðarinnar sem menn báru fyrir brjósti er þeir lögðust gegn því.

Það er því hjákátlegt að sjá sömu aðila og börðust gegn fjölmiðlafrumvarpinu á sínum tíma boða nú fjölmiðlalöggjöf sem nauðsynlegan þátt í því sem þeir kalla nýtt Ísland. 


Verður núverandi Herjólfur notaður til siglinga í Bakkafjöru?

Alls ekki slæmur kostur ef rétt verður staðið að málum

  Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér er helst til skoðunar nú hjá Siglingastofnun að nota núverandi Herjólf til siglinga í Bakkafjöru, þegar höfnin þar verður tilbúin til notkunar um mitt ár 2010. Verið er að kanna möguleika á að dýpka niður á sandrifið þannig að djúprista skipsins verði ekki takmarkandi þáttur við innsiglingu í höfnina. Slík dýpkun færi þá fram einu sinni til tvisvar á ári sem tryggði nægt dýpi á rifið. Gera þarf nauðsynlegar endurbætur á skipinuÞessi leið þarf alls ekki að vera slæmur kostur og er virkilega vert að skoða hana. Það er mikill munur á því hvort siglt er tæpa 3 tíma til Þorlákshafnar eða hálftíma í Bakkafjöru og núverandi Herjólfur getur að mínu mati vel leyst það verkefni að sigla milli Eyja og Bakkafjöru. Herjólfur er öflugt og gott sjóskip sem reynst hefur vel og stálið er í lagi þó að skipið sé að verða 17 ára. Að sjálfsögðu þarf að fara í endurbætur á skipinu. Endurnýja vélbúnað, farþegaaðstöðu og fleira, sem orðið er lúið, og einnig að gera breytingar sem nauðsynlegar eru til að skipið uppfylli nýjar öryggiskröfur. Að slíkum endurbótum loknum er ekkert því til fyrirstöðu að skipið geti vel leyst þetta verkefni næstu árin.Slík endurnýjun myndi að eflaust kosta einhverja fjármuni en sú upphæð yrði aðeins brot af því sem nýsmíði kostar og við þær aðstæður sem uppi eru í íslensku efnahagslífi verður að horfa raunsætt á hlutina og velja þann kost sem er hagkvæmastur en uppfyllir um leið þær megin kröfur setja þarf til að leysa verkefnið. Þá ætti það einnig að vera jákvætt að hægt er að framkvæma slíkar endurbætur hér heima sem er atvinnuskapandi og því gott innlegg í nauðsynlega atvinnusköpun á næstu misserum.

Vert að horfa jákvæðum augum á þennan möguleika

Ég held að það sé engin ástæða til annars en að horfa jákvæðum augum á þennan kost ef niðurstaða Siglingastofnunnar verður að fara þessa leið. Trúlegt er að með dýpkun á sandrifinu utan Bakkafjöruhafnar verði minna um frátafir vegna veðurs og auðvitað er það kostur, meðan að reynsla fæst á nýja höfn, að hafa skip sem við vitum að getur, ef á þarf að halda, siglt til Þorlákshafnar án nokkurra vandkvæða. Herjólfur hefur siglt þangað síðustu 16 árin og ætti því að komast þá leið nokkur skipti til viðbótar ef þörf verður á.Flutningsgeta skipsins er svipuð og þeirrar nýju ferju sem ráðgert var að smíða þannig að það eru í raun engir annmarkar á að nota skipið í þetta verkefni.

Hin leiðin er að finna notaða ferju með djúpristu innan marka

Hin leiðin, sem möguleg er, felst í að finna notað skip sem hefur djúpristu innan þeirra marka sem sett voru í upphafi. Undir forystu Vestmannaeyjabæjar hefur verið unnið að því máli undanfarna mánuði og er jafnvel búið að finna skip sem getur hentað. Um er að ræða danska ferju, Kyholm, sem lítur vel út í alla staði og virðist henta í verkefnið. Djúprista skipsins er innan marka, flutningsgeta farþega og farartækja er nægjanleg og skipið í góðu ásigkomulagi. Enn á þó eftir að fá niðurstöðu í nokkur tæknileg atriði áður en hægt er að segja til um það með vissu hvort skipið hentar fullkomnlega til verksins. Það mál hefur nú verið fært úr höndum okkar heimamanna, sem unnið hafa að þessu, á borð Siglingastofnunnar sem taka mun ákvörðun um næstu skref.

Mikilvægt að horfa raunsætt á málin og spila skynsamlega úr stöðunni

Hvor leiðin sem verður fyrir valinu held ég að verði vel ásættanleg fyrir Vestmannaeyinga. Það skiptir höfuð máli að fá úrbætur í samgöngumálum sem fyrst. Það liggur fyrir að höfn í Bakkafjöru á að verða tilbúin til notkunar eftir 16 – 17 mánuði og þá mega ekki verða tafir á að hægt verði að hefja siglingar milli Bakka og Eyja. Við verðum að horfast í augu við það að ný ferja verður ekki smíðuð fyrir þann tíma og miðað við stöðu mála í þjóðfélaginu gæti það tafist um einhver ár. Þess vegna verðum við að horfa raunsætt á málin og velja þann kost sem bestur er í þeirri þröngu stöðu sem úr er að spila. Það hefur engann tilgang að vera með yfirboð eða óraunhæfar hugmyndir í þeim efnum. Slíkt mun ekki leysa nein vandamál heldur einungis koma okkur í koll  

Þrefalt dýrara að fara þjóðveginn til Eyja

Enn er lagður sérstakur skattur á Eyjamenn í formi hækkaðra fargjalda með Herjólfi. Vegatollurinn á þjóðveginum til Eyja er ekkert annað en óréttlátur skattur. Eftir hækkun mun það kosta fjögurra manna fjölskyldu, hjón með tvo unglinga á aldrinum 12 - 15 ára og bíl, 19.354 kr. á fullu fargjaldi að fara fram og til baka milli Eyja og Þorlakshafnar en hægt er að koma verðinu niður í  10.780 með því að kaupa kaupa afsláttareiningar fyrir 19.600 krónur.

Milli Eyja og Þorlákshafnar eru 76 km. eða 152 km. samtals báðar leiðir. Það þætti trúlega einhverjum dýrt að skreppa út á þjóðvegina í bíltúr með fjölskylduna og borga yfir 19.000 krónur fyrir að rúlla 150 kílómetrana. Samkvæmt útreikningum FÍB kostar það meðal bíl rúmar 40 kr að aka hvern km. og er þá allur kostnaður tiltekinn. Það kostar því innan við 6.200 kr. að aka 150 km leið á öllum þjóðvegum landsins nema á veginum milli lands og Eyja. Þar er sérstök sköttun í gangi þannig að þeir sem um þann þjóðveg fara greiða þrefalt gjald.

Er nú ekki kominn tími til fyrir yfirmenn samgöngumála að taka á þessu óréttlæti.


mbl.is 12% dýrara að fara í Herjólf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn í fótspor Davíðs?

Forsetinn virðist eiga afar erfitt með að halda sig á mottunni um þessar mundir. Kominn á kaf í bullandi pólitík og finnst hann líklega, sem guðfaðir ríkisstjórnarinnar, vera orðinn pólitískur talsmaður hennar.

Það hefur verið hamast á Davíð Oddssyni, seðlabankastjóra, t.d. vegna ummæla hans í frægum Kastljósþætti þar sem hann sagði Íslendinga ekki ætla að borga skuldir óreiðumanna. Fjölmiðlar, stjórnmálamenn og hluti þjóðarinnar hefur kennt þessu viðtali um að hafa stórskaðað Íslendinga. Allur kraftur ríkisstjórnarinnar fer í að finna leiðir til að koma Davíð frá og trumbuslagararnir eru mættir á Arnarhól til að krefjast þess að Davíð víki.

Það er forvitnilegt að velta fyrir sér hver þáttur forsetans er í því sem hér hefur gerst. Hann var ein aðal grúppía útrásarvíkinganna, elti þá og mærði þá öllum stundum. Nú kemur hann fram í viðtölum erlendis og segir nokkurnveginn það sama og Davíð sagði í Kastljósþættinum fræga. Að Íslendingar ætli ekki að borga. Slík ummæli forsetans hljóta að hafa amk. sömu áhrif og orð seðlabankastjórans. Nú bíður maður spenntur eftir að sömu stjórnmálamenn og lýstu fyrirlitningu sinni á orðum Davíðs stígi fram og setji ofan í við forsetann og að trumbuslagararnir fari að snúa sér að bóndanum á Bessastöðum og krefjast þess að hann víki. Ef þeir gera það ekki eru þeir ekki að berjast fyrir nýju og betra Íslandi heldur er tilgangurinn einhver allt annar.

Það hýtur a vera krafa þjóðarinnar að forsetinn axli sína ábyrgð á útrásarsukkinu eins og aðrir og hverfi frá völdum og hafi fram að því vit á að halda sig á mottunni og reyna að vera sameiningarták þjóðarinnar á erfiðum tímum en ekki haldinn pólitískri athyglissýki.


mbl.is Orðum forsetans slegið upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er verk að vinna!

Krafa um endurnýjun og uppstokkun í stjórnmálaflokkum landsins er hávær eftir efnahagshrunið. Kjósendur krefjast breytinga og hávær krafa er um að nýtt fólk verði valið til starfa á næsta alþingi Íslendinga. Stjórnmálaflokkarnir verða að bregðast við þessu kalli og nú þegar er ljóst að þessi háværa krafa kjósenda er farin að hafa áhrif.Þessi krafa er ekki síður hávær meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins en annarra flokka og er reyndar, að margra mati, lykillinn að því að flokkurinn geti snúið vörn í sókn.

 Margir þátttakendur í útrásardansinum

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins reyna hvað þeir geta að kenna stefnu flokksins um það hrun sem orðið hefur í íslensku efnahagslífi. Eflaust hefur forysta Sjálfstæðisflokksins og þingmenn hans gert mörg mistök á undanförnum árum en þeir eru bara ekki einir um það. Flestir stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, hafa meira og minna sofið á verðinum í þessum efnum og tekið á einhvern hátt þátt í dansinum. Ýmislegt er hægt að tína til í orðum og athöfnum margra stjórnmálamanna í þeim efnum. Jafnvel sjálfur forseti lýðveldisins var virkur þátttakandi í útrásardansinum og mærði útrásarvíkingana sem mest hann mátti, þó að lítið fari fyrir þeim söng nú. Það er því erfitt að ætla að setja alla ábyrgð af því hvernig komið er á Sjálfstæðisflokkinn og stefnu hans.Hitt er annað mál að Sjálfstæðisflokkurinn þarf að horfast í augu við stöðuna og það sem miður hefur farið. Endurnýja sig, horfa til framtíðar og leggja fram skýra áætlun um hvernig byggja megi upp til framtíðar á grunni sjálfstæðisstefnunnar.

Endurnýjun í þingliðinu nauðsynleg

Á gríðarlega fjölmennum fundi sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir á Grand Hótel í Reykjavík fyrir skömmu sagði Björn Bjarnason, að endurnýjun væri flokknum nauðsynleg nú á þessum tímamótum. Ný forysta myndi taka við stjórnartaumum í flokknum á komandi landsfundi og það væri flokknum nauðsynlegt að mikil endurnýjun yrði í þingliði flokksins í öllum kjördæmum.

Breytingar alfarið í höndum kjósenda

Allt bendir til þess að í flestum kjördæmum verði efnt til prófkjörs til uppstillingar á lista. Þar með gefst kjósendum tækifæri til breytinga. Það verður því alfarið í höndum þeirra sem þátt taka í prófkjörunum að ná fram þeim breytingum og þeirri endurnýjun sem krafa virðist vera um.  Það vald er hjá kjósendum.

Fólk sem hefur í raun spúlað dekkið

Sjálfstæðisflokkurinn þarf á endurnýjun að halda. Hann þarf  á því að halda að ná betri tengingu við almenning í landinu. Í þingliði flokksins þarf að endurspeglast litróf mannlífsins á Íslandi. Fólk úr öllum stéttum með mismunandi bakgrunn. Venjulegt fólk sem þekkir hvernig það er að vinna við undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar og hefur í raun spúlað dekkið og stigið ölduna. Migið í saltan sjó. Fólk sem skilur á hverju við þurfum að byggja afkomu okkar til framtíðar. Fólk úr atvinnulífinu. Fólk sem hefur baslast við að koma þaki yfir höfuðið og veit hvað það er að standa skil á því sem því fylgir.Venjulegir Íslendingar í jarðsambandi við land og þjóð. Stétt með stétt.Það var slíkt fólk sem gerði Sjálfstæðisflokkinn að þeirri fjöldahreyfingu sem hann varð og það er slíkt fólk sem þarf að kalla til starfa nú þegar skýjaborgir pappírsviðskiptanna eru hrundar og allir eru að komast til meðvitundar um það á ný að velferð okkar byggist í raun á auðlindum okkar og framleiðslu til útflutnings. Það er því verk að vinna.

Grímur Gíslason   


Breytingar á framboðslistum?

Ágætt kjördæmisþing hjá okkur Sjálfstæðismönnum í Suðurkjördæmi í dag.  Ákveðið að fara í prófkjör og talsverður fjöldi gaf sig fram á fundinum sem frambjóðendur. Á fundinum kom einnig ljóslega fram sú krafa að fólk vill sjá breytingar

Það er greinilegt að þess er krafist að endurnýjun verði  á framboðslistum fyrir komandi þingkosningar. Fólk vill nýtt blóð. Ný andlit. Það er tími endurnýjunar.

Á fundi Sjálfstæðismanna á Grand Hótel í síðustu viku sagði Björn Bjarnarsn að nú væri tími endurnýjunar hjá Sjálfstæðisflokknum runninn upp. Eldri þingmenn þyrftu að stíga til hliðar og gefa nýju fólki tækifæri að taka við. Í sumum kjördæmum virðast sitjandi þingmen hugsa á sama hátt og Björn. Í dag tilkynnti Sturla Böðvarsson að hyggðist draga sig hlé. Gott hjá honum og Sturla fær prik hjá mér fyrir þessa ákvörðun.

Á fundi kjördæmisráðs Suðurkjördæmis í dag tilkynntu allir sitjandi þingmenn Suðurkjördæmis að þeir ætluðu að sækjast eftir endurkjöri. Árni Matthisen. Árni Johnsen, Kjartan Ólafsson og Björk Guðjónsdóttir sækjast öll eftir endurkjöri.

Þau eru greinilega ekki á sama máli og Sturla og Björn,  að það þurfi að stokka upp og endurnýja.

Breytingar eru því í höndum kjósenda. Þeirra sem þátt taka í prófkjörinu 14. mars nk. Þá fá kjósendur tækifæri á að raða upp á lista og gera breytingar. Valið er í höndum fólksins. Ef að það vill breytingar þá getur það gert þær.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband