Eru breytingar á stjórnarskrá og kosningalöggjöf brýnustu verkefnin?

Dettur einhverjum heilvita skipstjóra í hug að láta áhöfnina fara að skúra messann, í stað þess að koma vélinni í gang, ef skipið er vélarvana í ölduróti?

Það er dapurlegt að fylgjast með hvernig reynt er að nota ástandið sem skapast hefur hér, í kjölfar efnahagshrunsins, til að gera byltingar á innviðum samfélagsins. Það er hrópað á umbyltingu stjórnarskrárinnar og umbyltingu á kosningalöggjöfinni. Breytingar á þessum grunnþáttum eru settar í forgang sem nauðsynlegustu aðgerðir sem ráðast þarf í til að rétta af þjóðaskútuna eftir efnahagshrunið.

Hvurslags vitleysa er í gangi? Við höfum notast við þessa stjórnarskrá áratugum saman og verið nokkuð sæl með okkur. Hér hefur verið byggt upp samfélag, sem þróaðist reyndar á miklum hraða frá eymd og vesæld til velsældar, og það eru ekki margir mánuðir síðan allir töldu að íslenskt samfélag væri eitt það allra besta í heimi. Við höfum byggt upp þetta samfélag okkar upp á grundvelli þeirrar stjórnarskrár sem við höfum í dag og það er algjör fásinna að ætla að kenna stjórnarskránni um efnahagshrunið.

Hitt er svo aftur annað mál að það er sjálfsagt að endurskoða stjórnarskránna. Það á að gera á yfirvegaðan hátt en ekki kasta til þess höndum. Það verk er samt sem áður á engann hátt brýnasta verkefnið sem þarf að ráðast í við þær efnahagsaðstæður sem uppi eru í dag.

Það er heldur ekki kosningalöggjöfinni að kenna að hér varð efnahagshrun og því leysir það ekki þann vanda sem við erum í, að rjúka til og eyða tímanum nú til að umbylta henni þó að sjálfsagt sé að endurskoða hana einnig, en á yfirvegaðan hátt eins og stjórnarskránna.

Þarf raunhæfar aðgerðir en ekki líknarmeðferð eða skammtalækningar

Stjórnvöld eiga strax að hætta að eyða dýrmætum tíma í umræður um stjórnarskrárbreytingar eða breytingar á kosningalöggjöf og snúa sér að þeim verkefnum sem brýnni eru. Skuldsett heimili og fyrirtæki eru að sligast og lítið bólar á úrræðum sem duga til bjargar þeim.

Það er ekki þörf á líknandi gjaldþrotameðferð eins og frumvarp hefur verið lagt fram um. Það er jafngott fyrir þá sem eru að verða gjaldþrota að horfast í augu við það strax í stað þess að lengja örlítið í snörunni þannig að gjaldþrotið verði ekki að veruleika fyrr en síðar á árinu, þ.e.a.s. eftir kosningar, eins og virist vera megin markmið stjórnvalda. Enginn er bættari með það.

Það þarf raunhæfar aðgerðir til úrbóta en ekki einhverjar skammtalækningar til að draga úr kvölunum.

Stjórnmálamenn verða að hafa þor til að taka erfiðar ákvarðanir

Stjórnmálamenn verða að hafa þor til að taka umræðu um erfið mál og taka erfiðar ákvarðanir, þó að kosningar séu framundan. Þeir eiga að hafa þor til að segja sannleikann og það er ekki trúverðugt af frambjóðendum að ætla að vera í gerfi jólasveinsins með fullan poka af loforðapökkum um stórframkvæmdir og fjárveitingar.

Fólkið í landinu vill skýr skilaboð. Það vill vita hver staðan er, hverjir möguleikarnir eru og hvaða björgunartæki þarf að nota til að koma okkur til lands úr efnahagsháskanum. Við eigum einhverja björgunarbáta sem setja má á flot, eins og t.d. lífeyrissjóðina, og stjórnmálamenn verða að hafa dug og þor til að taka umræðu um slíkar mögulegar björgunaraðgerðir fyrir kosningar, en ekki fresta þeim fram yfir þær.

Ekki brýnast að skúra messann ef skipið er vélarvana í öldurótinu

Almennilegum skipstjóra eða öðrum yfirmönnum á skipi dytti ekki til hugar að láta áhöfnina fara að skúra messann ef að skipið væri vélarvana í ölduróti og brimsköflum. Það yrði gefin skipun um að ganga til verka við að koma vélinni á gang, væri þess nokkur kostur, eða að grípa til annarra þeirra aðgerða sem dygðu til að bjargar mannskapnum.

Það sama á að eiga við um íslensku þjóðaskútuna. Hún velkist nú um, vélarvana, í ölduróti og brimsköflum, en í stað þess að láta áhöfnina vinna með samstilltu átaki að því að koma vélinni í gang á ný er meira hugsað um að láta áhöfnina skúra messann. Breytingar á stjórnarskrá og kosningalögum eru settar í forgang í stað þess að taka á því sem raunverulega þarf. Björgun heimila og fyrirtækja.

Ég myndi reka skipstjóra og aðra yfirmenn á skipi sem ég ætti yrðu þeir uppvísir að slíku verklagi.

Kjósendur velja yfirmenn á skútuna í komandi prófkjörum

Í komandi kosningum þarf að kalla til verka fólk sem þorir að takast á við þann vanda sem bíður. Fólk sem hefur reynslu og þor til takast á við þau erfiðu verkefni sem bíða. Fólk sem þorir að segja almenningi í landinu satt um hver staðan er. Fólk sem einbeitir sér að því að koma vélinni í gang á ný og nota þau björgunartæki sem duga til að koma okkur öllum heilum í höfn.

Það er í höndum kjósenda í landinu að velja yfirmenn í áhöfn á skútunar sem við öll siglum á. Yfirmenn sem þeir treysta að hafi það baráttuþrek og þor sem þarf í þeim átökum sem framundan eru við að sigla skútunni heilli til hafnar. Það val fer fram í þeim prófkjörum sem eru á næsta leiti.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband