Það er verk að vinna!

Krafa um endurnýjun og uppstokkun í stjórnmálaflokkum landsins er hávær eftir efnahagshrunið. Kjósendur krefjast breytinga og hávær krafa er um að nýtt fólk verði valið til starfa á næsta alþingi Íslendinga. Stjórnmálaflokkarnir verða að bregðast við þessu kalli og nú þegar er ljóst að þessi háværa krafa kjósenda er farin að hafa áhrif.Þessi krafa er ekki síður hávær meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins en annarra flokka og er reyndar, að margra mati, lykillinn að því að flokkurinn geti snúið vörn í sókn.

 Margir þátttakendur í útrásardansinum

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins reyna hvað þeir geta að kenna stefnu flokksins um það hrun sem orðið hefur í íslensku efnahagslífi. Eflaust hefur forysta Sjálfstæðisflokksins og þingmenn hans gert mörg mistök á undanförnum árum en þeir eru bara ekki einir um það. Flestir stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, hafa meira og minna sofið á verðinum í þessum efnum og tekið á einhvern hátt þátt í dansinum. Ýmislegt er hægt að tína til í orðum og athöfnum margra stjórnmálamanna í þeim efnum. Jafnvel sjálfur forseti lýðveldisins var virkur þátttakandi í útrásardansinum og mærði útrásarvíkingana sem mest hann mátti, þó að lítið fari fyrir þeim söng nú. Það er því erfitt að ætla að setja alla ábyrgð af því hvernig komið er á Sjálfstæðisflokkinn og stefnu hans.Hitt er annað mál að Sjálfstæðisflokkurinn þarf að horfast í augu við stöðuna og það sem miður hefur farið. Endurnýja sig, horfa til framtíðar og leggja fram skýra áætlun um hvernig byggja megi upp til framtíðar á grunni sjálfstæðisstefnunnar.

Endurnýjun í þingliðinu nauðsynleg

Á gríðarlega fjölmennum fundi sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir á Grand Hótel í Reykjavík fyrir skömmu sagði Björn Bjarnason, að endurnýjun væri flokknum nauðsynleg nú á þessum tímamótum. Ný forysta myndi taka við stjórnartaumum í flokknum á komandi landsfundi og það væri flokknum nauðsynlegt að mikil endurnýjun yrði í þingliði flokksins í öllum kjördæmum.

Breytingar alfarið í höndum kjósenda

Allt bendir til þess að í flestum kjördæmum verði efnt til prófkjörs til uppstillingar á lista. Þar með gefst kjósendum tækifæri til breytinga. Það verður því alfarið í höndum þeirra sem þátt taka í prófkjörunum að ná fram þeim breytingum og þeirri endurnýjun sem krafa virðist vera um.  Það vald er hjá kjósendum.

Fólk sem hefur í raun spúlað dekkið

Sjálfstæðisflokkurinn þarf á endurnýjun að halda. Hann þarf  á því að halda að ná betri tengingu við almenning í landinu. Í þingliði flokksins þarf að endurspeglast litróf mannlífsins á Íslandi. Fólk úr öllum stéttum með mismunandi bakgrunn. Venjulegt fólk sem þekkir hvernig það er að vinna við undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar og hefur í raun spúlað dekkið og stigið ölduna. Migið í saltan sjó. Fólk sem skilur á hverju við þurfum að byggja afkomu okkar til framtíðar. Fólk úr atvinnulífinu. Fólk sem hefur baslast við að koma þaki yfir höfuðið og veit hvað það er að standa skil á því sem því fylgir.Venjulegir Íslendingar í jarðsambandi við land og þjóð. Stétt með stétt.Það var slíkt fólk sem gerði Sjálfstæðisflokkinn að þeirri fjöldahreyfingu sem hann varð og það er slíkt fólk sem þarf að kalla til starfa nú þegar skýjaborgir pappírsviðskiptanna eru hrundar og allir eru að komast til meðvitundar um það á ný að velferð okkar byggist í raun á auðlindum okkar og framleiðslu til útflutnings. Það er því verk að vinna.

Grímur Gíslason   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband