Mikilvægast að verja þá grunnþjónustuna sem er til staðar

Það hafa orðið ótrúlegar breytingar hér á landi á skömmkum tíma. Efnahagshrunið og afleiðingar þess hafa vakið fólk til umhugsunar og breytt gildismati. Ljóst er að erfiðir mánuðir eru framundan og það mun þrengja að fólki en í öllum þrengingum felast einnig færi til sóknar.

Kreppa á landsbyggðinni í mörg ár

Efnahagskreppan hefur ekki enn haft sömu áhrif víða á landsbyggðinni eins og á höfuðborgarsvæðinu og er það ekki undarlegt því að víðast hvar í hinum dreifðu byggðum hefur verið kreppa í mörg ár, sem hvað skýrast hefur komið fram í fólksfækkun þar, meðan bullandi þennsla og fjölgun var á höfuðborgarsvæðinu. Góðæri sem í raun var sýndarveruleiki sem nú er horfinn.

Í Vestmannaeyjum hefur fólk alltaf byggt, og mun alltaf byggja, afkomu sína á verðmætasköpun úr hafinu. Auðlindinni sem er og verður ein af megin stoðum íslensks samfélags og sveiflur í afkomu sjávarútvegs hafa fljótt bein áhrif á afkomuna í Eyjum.

Þrátt fyrir að íbúar landsbyggðarinnar hafa verið litlir þátttakendur í þeirri miklu þennslu sem ríkt hefur í þjóðfélaginu þá mun það ekki síst bitna á þeim að koma þjóðfélaginu úr þeim efnahagsvanda sem Íslendingar eru í, því að tekjubrunnurinn til skuldaskila felst í nýtingu auðlindanna og framleiðslu til útflutnings. Við eigum því að nýta okkur þau tækifæri sem nú geta skapast til uppbyggingar og eflingar samfélagsins í Eyjum.

Mikilvægast að verja heimilin, atvinnulífið og grunnstoðir samfélagsins

Kosningar eru í nánd og þá er algengt að loforðaflaumur framkvæmda og verka sé dreginn á flot af frambjóðendum og hver í kapp við annan reynir að skreyta sig fjöðrum, sem því miður eru alloft stolnar. Við þær aðstæður sem uppi eru nú er slíkur málflutningur óábyrgur og ótrúverðugur. Við verðum að horfast í augu við stöðuna eins og hún er og vinna úr henni eins vel og mögulegt er.

Megin verkefnið í fyrstu er að tryggja hag heimilanna og finna leiðir til aðstoðar fólki sem er að kafna í skuldaklafa vegna óðaverðbólgu og gengishruns. Samhliða því þarf að tryggja að fyrirtæki fái nauðsynlega fyrirgreiðslu til að halda þeim gangandi en því miður er bankakerfi landsins en höktandi og varla fært til þess.

Verja þarf að grunnþjónusta, s.s. heilbrigðisþjónusta, verði ekki skert og tryggja þarf öflugar og góðar samgöngur. Það er sjálfsagt að leita leiða til sparnaðar á öllum sviðum en í þeim efnum verður að fara skynsamlegar leiðir.

Nú er tækifæri og tími til breytinga

Traust heilbrigðisþjónusta og öflugar samgöngur eru nauðsynlegar grunnstoðir kröftugs samfélags í Eyjum. Þær grunnstoðir þarf því að verja. Það eru sóknarfæri í Eyjum og verði rétt haldið á málum munu Vestmannaeyjar og aðrir álíka staðir á landsbyggðinni verða fyrstir til að keyra upp úr kreppunni.

Nú er tækifærið og tíminn til breytinga. Stöndum saman og nýtum möguleikann sem við höfum til nýrrar sóknar með raunhæf markmið í farteskinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband