Sækist eftir 3. sæti í Suðurkjördæmi

  Í dag sendi ég frá mér fréttatilkynningu þar sem ég tilkynnti þátttöku mína í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, þar sem ég sækist eftir stuðningi í 3. sætið.

Kallað hefur verið eftir uppstokkun og endurnýjun í forystusveit á framboðslistum. Það er kallað eftir fólki sem er tilbúið að takast á við þau krefjandi verkefni sem bíða. Fólki sem hefur reynslu og þor til að taka erfiðar ákvarðanir. Fólki sem vill að gera upp við fortíðina og horfast í augu við þau mistök sem gerð hafa verið, viðurkenna þau og læra af þeim. Fólki sem er tilbúið að takast á við þau brýnu úrlausnarefni sem bíða og taka slaginn í þeirri varnarbaráttu sem framundan er. Fólki sem er tilbúið að sækja fram á veg og nýta þau fjölmörgu tækifæri sem eru til sóknar. Fólki sem vill endurbyggja réttlátt og traust samfélag á grunni lýðræðis og ábyrgs frelsins til orðs og athafna.

Ég er 48 ára Vestmannaeyingur en hef verið búsettur á Selfossi undanfarin ár. Ég er baráttumaður og hef víðtæka reynslu á mörgum sviðum sem nýtast mun vel til að takast á við þau krefjandi verkefni sem bíða. Ég hef starfað sem sjómaður, kennari, blaðamaður, verkefnastjóri í skipasmíðum og síðustu árin hef ég verið framkvæmdastjóri Atlas hf. Þá hef ég m.a. starfað að sveitarstjórnarmálum og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á þeim vetvangi.

Ég legg áherslu á að brýnasta verkefnið sé að tryggja hag heimila og fjölskyldna í landinu sem og rekstrargrundvöll fyrirtækja. Taka þarf á skuldastöðu heimilanna og koma með raunhæfar lausnir í þeim efnum. Vextir verða að lækka mjög hratt og bankastarfsemi að komast í eðlilegt horf enda er það grundvöllur þess að hjól atvinnulífsins geti snúist og gjaldeyrishöftum verði að létta eins fljótt og mögulegt er.

Ég legg áherslu á að hagur atvinnulífs og heimila fari saman því blómlegt atvinnulíf sé forsenda hagsældar heimilanna.

Þá legg ég áherslu á að verja grunnstoðir þjóðfélagsins svo sem, heilbrigðisþjónustu, samgöngur og löggæslu.

Ég legg áherslu á að standa vörð um grunn atvinnuvegina og skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda landsins enda er nýting þeirra, og hvers konar framleiðsla til útflutnings og gjaldeyrissköpunar, forsenda þeirrar uppbyggingar sem hér þarf að verða á næstu árum.

Ég legg áherslu á að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að rækta betur grunngildi sín og sambandið við grasrótina í þjóðfélaginu. Fólk úr öllum stéttum og öllum þjóðfélagsstigum hefur í 80 ár fundið skoðunum sínum og hugsjónum samleið með stefnu Sjálfstæðisflokksins, sem alltaf hefur byggt á frelsi einstaklingsins til orðs og æðis. Þess vegna hefur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf verið og er enn sú mikla fjöldahreyfing sem raun ber vitni. Sú stefna sem flokkurinn byggri á hefur leitt þjóðina til góðs gegnum árin en rétt er að minna á að öllu frelsi fylgi ábyrgð og að það getur aldrei orðið ótakmarkað. Allt frelsi þarf að vera innan eðlilegs ramma laga og regla í þjóðfélaginu. Þann ramma þarf að endurskoða til þess að tryggja að aldrei framar verði það mögulegt að óábyrg meðferð frelsisins geti orðið til að setja skuldaklafa á íslenska þjóð.

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Indriði H. Indriðason

Ég vil vekja athygli á vefsíðu, www.profkjor.politicaldata.org, sem er nýstofnsett.  Tilgangur vefsíðunnar er að skapa vettvang þar sem kjósendur geta nálgast upplýsingar um frambjóðendur og stefnumál þeirra auk annarra upplýsinga tengdum prófkjörunum/forvölunum.  Vefsíðan er opin frambjóðendum allra flokka í öllum kjördæmum en það er undir frambjóðendunum sjálfum komið að færa inn upplýsingar um sig og stefnumál sín.  Ef frambjóðendur kjósa eru færslur af þeirra eigin bloggum birtar sjálfkrafa á vefsíðunni.  Það gefur t.d. kjósendum möguleika á að skoða bloggfærslur allra frambjóðenda flokksins í tilteknu kjördæmi – og jafnvel takmarkað við tiltekið sæti á listanum – á einum stað.  Það er von okkar að vefsíðan efli pólitíska umræðu og gefi kjósendum aukið færi á að taka málefnalega afstöðu. 

 

Frambjóðendur geta skráð sig hér: http://www.profkjor.politicaldata.org/wp-login.php?action=register

Indriði H. Indriðason, 4.3.2009 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband