Færsluflokkur: Bloggar

Er þetta Nýja Ísland? - Er enginn til að berja potta núna?

Starfslaunum listamanna úthlutað! Er ekki kreppa? Er ekki verið að skera niður alls staðar? Hver eru launin? Ég get ekki betur séð en að í heildina sé þarna verið að tala um samtals yfir 80 árslaun. Hvernig í ósköpun er hægt að bjóða almenningi upp á slíkt þegar verið er að herða sultarolína hjá landsmönnum og hækka skatta á sama tíma og allir hafa nóg með að ´ná endum saman. Hefði ekki verið ráð að skera niður þarna og spara einhverjar millur??

Það er amk. grátbroslegt að hugsa til þess að einn af aðal pottatrommuleikurunum, sem áður var í hópi grúppía útrásarvíkinganna skuli vera þarna fremstur í flokki. Þetta er kannski það Nýja Ísland sem pottatrommararnir voru að krefjast. Allir á spenann hjá ríkinu!


mbl.is Þrír rithöfundar fá starfslaun í 3 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki kominn tími til aðgerða

Þetta er nú varla ásættanlegt lengur og ljóst að ráðast þarf í verulegar viðhaldsframkvæmdir á Herjólfi. Það er ekki ásættanlegt að skip sem á að halda uppi áætlunarsiglingum skuli vera úr leik aftur og aftur vegna bilana. Annað hvort er eitthvað bogið við viðhald skipsins eða það er hreinlega kominn tími til að fara í allsherjar "skveringu" á skipinu. Þetta ástand er hreinlega ekki boðlegt lengur.

Kristján Möller nú er að bretta upp ermar og "taka málið vettlingatökum" eins og Höskuldur framsóknarþingmaður myndi orða það. Atvinnuskapandi viðhaldsverkefni sem nauðsynlegt er að ráðast í.


mbl.is Herjólfur fer ekki fyrri ferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýtt úr vör á ný

Eftir "boggbindindi" í talsverðan tíma er rétt að ýta úr vör á ný og leggja eitthvað til umræðunnar. Það hefur reyndar verið sannkölluð "vertíð" hjá bloggurum síðustu mánuðina enda af mörgu að taka og trúlega mun einnig verða af nógu að taka næstu mánuðina.

Ný ríkisstjórn, minnihlutastjórn vinstri aflanna undir verndarvæng framsóknar, komin til valda og einhvernveginn hefur maður á tilfinninguni að stormasamt samband geti verið í uppsiglingu. Amk. gefa fyrstu dagarnir í sambandinu ástæðu til að álykta á þá leið.

Það eina sem Samfylking og Vinstri grænir virðast sammála um er að fylgja eftir efnahagsáætlun og fyrirhuguðum björgunaraðgerðum fyrri ríkisstjórnar og síðan það að reka Davíð Oddsson. Hvalveiðimál, Evrópumál, uppbygging stóriðju eða önnur atvinnutækifæri eru allt mál sem djúpstæður ágreiningur er um milli stjórnarflokkanna. Það verður því fróðlegt að fylgjast með því hvernig þetta samband mun þróast á næstu vikum og mánuðum.


Vaknaðu Marshall, Eyjamenn hafa ekki gullfiskaminni

Það er ágætt að hafa góð fyrirheit og boða samgöngubætur vegna niðurskurðar á þorskafla en einhvernveginn er þetta hálfgert yfirklór að mér finnst. Sumt af þessum framkvæmdum hefur í reynd ekkert með niðurskurð þorskafla að gera og maður veltir óneitanlega fyrir sér hvernig þessar framkvæmdir eiga að skila sér til þeirra sem missa tekjur vegna skeringar á þorskveiðum.

Fyrir nokkrum vikum gaf samgönguráðherra, Kristján Möller, út yfirlýsingu um fjölgun ferða milli lands og Eyja en nú hefur verið gefin út önnur yfirlýsing um að ekkert verði af fjölgun ferða þar sem það sé of dýrt. Ef Kristján hefur ekki kynnt sér það þá er rétt að benda honum á að skerðing á þorskveiðum mun hafa mikil áhrif í Vestmannaeyjum eins og´í öðrum verstöðvum landsins.

Allar þær framkvæmdir sem flýta á eru nauðsynlegar, enginn efast um það, en efinn felst í því hvernig þessar framkvæmdir koma í stað þeirra tekna og starfa sem þorskveiðar skapa.

Aðstoðarmaður samgönguráðherra, sem er varaþingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, hafði mörg og stór orð um það fyrir kosningar að það væri lítið mál að koma samgöngum milli lands og Eyja í eðlilegt horf og ekkert hefði verið gert í þeim efnum í 16 ár ætti nú að láta til sín taka, pikka aðeins í yfirmann sinn og benda honum á að það sé lágmark að standa við útgefnar yfirlýsingar um fjölgun ferða milli lands og Eyja. Annað er bara ekki boðlegt í stöðunni.

Eyjamenn geta ekki sætt við þá framkomu sem þeim hefur verið sýnd af samgönguráðherra og hans undirtyllum síðustu vikurnar. Aðgerða er þörf í samgöngumálum Eyjamanna. Það er ekki nóg að gala hátt fyrir kosningar það þarf líka að standa við stóru orðin. Vaknaður Róbert Marshall. Eyjamenn hafa ekki gullfiskaminni.


mbl.is Samgönguráðherra: fjármagn flutt til sem var þegar á samgönguáætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atkvæði Eyjamanna geta ráðið úrslitum

Öflugt fylgi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi  lykilatriði til árangur fyrir Vestmannaeyjar

Það eru í raun tveir valkostir í boði í kosningunum á laugardaginn. Annars vegar sterk og kröftug stjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins eða vinstri samsteypustjórn þriggja eða jafnvel fjögurra flokka. Í boði er áframhaldandi uppgangur og velferð undir stjórn Sjálfstæðisflokksins eða óvissa, ókyrrð, skattahækkanir og versnandi lífskjör með vinstri stjórn. Þetta eru skýrir valkostir sem rétt er að kjósendur velti vel fyrir sér áður en þeir ganga að kjörborðinu á laugardaginn.Það er vissulega hætta á því, þegar kjósendur eru orðnir vanir velgangni og uppgangi, að þrengingar fortíðar gleymist. Það gleymist hvernig ástand var hér í efnahagslífi þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við valdataumum ríkisstjórnar árið 1991. Þeir sem muna þann tíma eða kynna sér hann vilja örugglega ekki snúa aftur til þess horfs sem þá var.

Hver hefði trúað því árið 1990?

Ótrúlegur árangur hefur náðst í efnahagslífinu á undanförnum árum. Staða ríkissjóðs hefur aldrei verið sterkari og skuldir hans í raun engar. Her hefði trúað því árið 1990 að slíkt gæti gerst á Íslandi?Á sama tíma og skuldir ríkissjóðs hafa verið greiddar upp hafa skattar verið lækkaðir og auknu fjármagni verið veitt í velferðarkerfið. Framlög til samgöngumála hafa verið aukin, framlög til skólamála verið aukin og framlög til menntamála verið aukin, svo eitthvað sé nefnt. Hver hefði trúað því árið 1990 að slíkt yrði einhverntímann mögulegt?

Traustur grunnur

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt það og sannað í verkum sýnum að honum er treystandi. Undir hans stjórn hefur verið byggður traustur grunnur íslensks efnahagslífs og íslensks samfélags. Grunnur sem gefur möguleika á að horfa til nýrra tíma með bjartsýni og sókn í hug. Mýmörg verkefni bíða og Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn að halda áfram á þeirri góðu braut sem rudd hefur verið. Braut hagsældar og framfara fyrir Íslendinga.

Innistæðulaus loforð sem kosta munu skattahækkanir og skuldasöfnun ríkissjóðs

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins á vinstri vængnum hafa ausið út óábyrgum loforðum nú í aðdraganda kosninganna. Loforðum án skilgreininga eða skýringa um hvernig á að fjármagna og koma í framkvæmd. Þeir boða alsherjar stöðvun framkvæmda. Stöðvun á uppbyggingu iðnaðar. Stöðvun á nýtingu auðlinda til raforkuframleiðslu. Stöðvun á aukningu útflutningstekna. Eitt alsherjar stopp í atvinnulífinu með tilheyrandi atvinnuleysi. Á sama tíma og það er boðað eru gefin loforð um aukin útgjöld ríkissjóðs á öllum sviðum. Í heilbrigðismálum, skólamálum og samgöngumálum svo eitthvað sé nefnt.Hvernig á að fjármagna og framkvæma slíkt ef á sama tíma á að stöðva hjól atvinnulífsins og þannig minnka tekjuöflun ríkissjóðs. Til þess eru einungis tvær leiðir. Gamalkunnar leiðir vinstri aflanna. Skattahækkanir á launafólk og skuldasöfnun ríkissjóðs með tilheyrandi ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir landsmenn.

Eina örugga leiðin er að setja X við D

Á laugardaginn er það í höndum kjósenda hvora leiðina þeir vilja fara. Eina leiðin til að tryggja áframhaldandi vöxt og velferð er að Sjálfstæðisflokkurinn komi öflugur út úr kosningunum. Eina trygga leiðin er að Sjálfstæðisflokkurinn verði svo öflugur að ekki verði fram hjá honum gengið við myndun næstu ríkisstjórnar.Mikill meirihluti þjóðarinnar treystir Geir H Haarde best til að gegna starfi forsætisráðherra og leiða næstu ríkisstjórn. Eina leiðin til að tryggja að Geir verði forsætisráðherra er að kjósa Sjálfstæðisflokkin í kosningunum á laugardaginn.Sameinumst um að tryggja það að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram forystuafl í ríkisstjórn Íslands. Sameinumst um það að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið, nýtum þann trausta grunn sem byggður hefur verið og horfum til sóknar og framfara á komandi árum undir forystu Sjálfstæðisflokksins.Setjum X við D á laugardaginn, til sigurs fyrir okkur öll.Grímur Gíslason

Það skiptir miklu máli fyrir Eyjamenn

Atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum er ávísun á árangur í málefnum Vestmannaeyja

Niðurstaða kosninganna á laugardaginn skiptir miklu máli fyrir Vestmannaeyjar. Það skiptir miklu máli að Sjálfstæðisflokkurinn í Suðurkjördæmi fái öfluga kosningu og fái þannig aukið vægi innan þingflokks Sjálfstæðismanna. Það mun skipta miklu fyrir Vestmannaeyinga að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram forystuafl í ríkisstjórn Íslands því að með samspili öflugs meirihluta Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn og öflugum Sjálfstæðisflokki í ríkisstjórn mun nást árangur í þeim fjölmörgu verkefnum sem bíða í Eyjum.

Bættar samgöngur lykilatriðiNiðurstaða í framtíðarsamgöngum Vestmannaeyja er á næsta leiti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur markað þá stefnu að ráðist verði í samgöngubætur á leiðinni milli lands og Eyja þegar niðurstöður varðandi möguleika á jarðgangagerð liggja fyrir. Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi höfum sett samgöngubætur við Eyjar í forgangsröð samgöngumála í kjördæminu og munum fylgja því fast eftir.Bættar samgöngur eru lykilatriði og í raun forsenda fyrir uppbyggingu á öðrum sviðum atvinnulífs og mannlífs í Eyjum. Þess vegna skiptir höfuðmáli að niðurstaða fáist í þessum efnum sem fyrst þannig að hægt verði að hefjast handa.Hver sem niðurstaðan verður varðandi framtíðarlausn er ljóst að horfa þarf til lausna í nútíð, þar til framtíðarlausn verður að veruleika, og mun ég ekki láta mitt eftir liggja í þeirri baráttu. Því get ég lofað.

Sterkur hlutur Eyjamanna á lista Sjálfstæðisflokksins

Hlutur Vestmannaeyinga í forystu Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi er sterkur og öflugur. Þrír Eyjamenn eru í efstu sætum, áhrifasætum á listanum, og það mun skipta máli þegar á reynir. Við munum beita okkur af alefli til árangurs í samgöngumálum Vestmannaeyja sem og öðrum þeim málum sem horfa til varnar eða sóknar fyrir byggðarlagið. Eyjamenn vita að við höfum hingað til ekki legið á okkar afli og því  síður munum við gera það á komandi árum. Við ætlum okkur að ná árangri. Við ætlum okkur að koma brýnum verkefnum í höfn. Við ætlum að vinna með íbúum í Eyjum og fyrir þá að þeim verkefnum sem fyrir liggja og upp munu koma.

X við D er okkar afl til árangurs

Til þess að hafa það afl sem nauðsynlegt er til árangurs í þeirri vinnu skiptir sköpum að Eyjamenn standi þétt við bakið á okkur og styðji Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum á laugardaginn. Hvert atkvæði skiptir máli. Hvert atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum þýðir aukið afl okkur til handa í baráttunni sem framundan er. Aukið afl til sóknar og sigurs fyrir Vestmannaeyjar.Ég treysti á góðan stuðning Eyjamanna nú sem endranær.Setjum X við D og sækjum þannig saman fram í málefnum Vestmannaeyja.Grímur Gíslason

Nýtt líf á lokaspretti kosningabaráttunnar

Það hefur verið í nógu að snúast nú á lokaspretti kosninga-Stelpa 2

baráttunnar. Ekki hafa þeir snúningar einungis snúist um kosningar og undirbúning þeirra hjá mér því lítil manneskja hefur verið á leið í þennan heim og hefur látið bíða aðeins eftir sér. Hún átti, samkvæmt reiknilíkaninu, að mæta til leiks í lok apríl en var ekki alveg á þeim buxunum og lét alla bíða komu sinnar.

Hún hefur kannski áttað sig á að pabbi var á kafi í kosningabaráttu og ætlað sér að kalla á alla þá athygli sem mögulegt væri og ekkert gæti verið betur fallið til þess en að draga að sér athyglina á lokasprettinum fyrir kosningar.

Hún ákvað því að gera vart við sig á miðvikudagskvöld, þar sem hún hafði trúlega grun um að pabbi hennar ætlaði að fara til Eyja á fimmtudag í kosningastúss. Hún hélt síðan allri athyglinni frá miðvikudagskvöldi og fram á fimmtudagskvöld með tilheyrandi þrautum fyrir móður hennar.

Skvísan kíkti svo í þennan harða heim um kvöldmatarleitið í gær, fimmtudag, við ómælda ánægju allra. Það að hún valdi að láta bíða eftir sér þar til tveimur dögum fyrir kosningar er kannski merki um að þarna sé verðandi pólitíkus á ferð og hver veit nema að þarna sé ferðinni verðandi foringi i Sjálfstæðisflokknum. Að minnsta kosti var hún mjög ánægð með merkið sem hún fékk í barminn fljótlega eftir fæðinguna í gær.

En hún er ekki ein um að vera ánægð, þetta litla skott. Ég er kátur og ánægður með þetta nýja líf og mun örugglega brosa enn breiðar en hingað til þá tvo daga sem eftir eru af kosningabaráttunni.


Mistök eða fávísi Róberts Marshall?

 -Svör við spurningu Róberts um samgöngumál Vestmannaeyja

Aumt fannst mér yfirklór Björgvins G. Sigurðssonar um að niður hafi fallið setning um samgöngur til Vestmannaeyja í svari hans við spurningum Blaðsins fyrir skömmu. Þeir sem lásu svar Björgvins í Blaðinu og síðan þá romsu sem hann sendir frá sér til afsökunnar því að hann gleymdi samgöngum til Eyja, í framhaldi af umfjöllun minni um svar hans, sjá efalaust flestir í gegnum það yfirklór.Í framhaldi af þessu reit Róbert Marshall pistil á eyjar.net þar sem hann beinir til mín spurningu um það hvað Sjálfstæðisflokkurinn hafi aðhafst í samgöngumálum Vestmannaeyja sl. 16 ár. Mér er afar ljúft að svara þessari spurningu Róberts því ég hef fylgst vel með þessum málum gegnum árin og haft mikinn áhuga á þeim. Sá áhugi varð ekki til í aðdraganda komandi kosninga, eins og hjá sumum öðrum sem lítið hafa látið sig málefni Vestmannaeyja varða undanfarin áratug þar til nú er þeir eru komnir í framboð til Alþingis,  og vilja þá teljast málsvarar Eyjamanna og málefna Vestmannaeyja.Það væri fróðlegt fyrir Eyjamenn að fara t.d. yfir Eyjablöðin síðasta áratuginn til að meta hvor okkar frambjóðandanna, Sjálfstæðismaðurinn Grímur Gíslason eða Samfylkingarmaðurinn Róbert Marshall, hafa haft sýnt málefnum Vestmannaeyja og þá sérstaklega samgöngumálum Vestmannaeyja, meiri áhuga á liðnum áratug.

Hvenær vaknaði áhugi Róberts Marshall á samgöngumálum Vestmannaeyja?

Svona í framhaldi af því er kannski rétt að beina þeirri spurningu til Róberts hvenær áhugi hans á samgöngumálum til Eyja hafi kviknað og hversu oft hann hafi fjallað um þau mál á opinberum vetvangi, t.d. með greinaskrifum, áður en hann hóf atkvæðaveiðar sínar í aðdraganda prófkjörs og kosninga?

Gríðarlega margt hefur áuinnist í samgöngumálum Vestmannaeyja á 16 árum

En aftur að spurningu Róberts. Hvað hefur áorkast í samgöngumálum Vestmannaeyja sl. 16 ár, þ.e. frá því Sjálfstæðisflokkurinn tók sæti í ríkisstjórn árið 1991?  Af mörgu er að taka þegar í þeim efnum og eflaust mun ég gleyma einhverju í svari mínu hér á eftir.
  1. Árið 1992 kom núverandi Herjólfur til Eyja og tók við siglingum af forvera hans með tilkomu nýja Herjólfs var tekið stórt skerf framávið í samgöngum við Vestmannaeyjar.
  2. Byggð voru landgöngumannvirki í Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn til að skapa aðstöðu fyrir farþega Herjólfs.
  3. Á árinu 1990 sigldi Herjólfur 410 ferðir milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja. Árið 2004 fór Herjólfur 570 ferðir og ár árinu 2006 voru ferðir Herjólfs 700. Nú að undanförnu hefur meirihluti Sjálfstæðismanna í Bæjarstjórn Vestmannaeyja unnið að því að ná samkomulagi við samgönguráðuneytið um að Herjólfur fari næturferðir í sumar og er útlit fyrir að samkomulag náist um þá tilhögum sem þýðir að Herjólfur fer 740 – 750 ferðir á árinu 2007.
  4. Hratt og örugglega var brugðist við ábendingum heimamanna um að fá öflugt skip til að leysa Herjólf af  þegar hann hefur þurt að fara í slipptökur og hefur ferjan St. Ola verið leigð til þess undanfarin ár.
  5. Bakkaflugvöllur hefur verið byggður upp, lýsingu og tækjabúnaði komið upp við flugvöllinn. Árið 1991 fóru örfáir farþegar um Bakkaflugvöll. Árið voru þeir 1998 16.963 og árið 2006 fóru 28.222 farþegar um Bakkaflugvöll.
  6. Farþegaaðstaða á Bakaflugvelli hefur verið byggð upp og nú er þar bæði góð farþegaaðstaða, flugturn og aðstaða fyrir starfsfólk.
  7. Í kjölfar harðrar samkeppni á flugleiðinni milli lands og Eyja, sem til varð að áeggjan vinstri manna í bæjarstjórn Vestmannaeyja hætti Flugfélag Íslands flugi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Þessi breyting hafði alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir flugsamgöngur milli Eyja og Reykjavíkur sem varð til þess að á síðasta ári ákvað ríkisstjórn Íslands, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, að hafa aðkomu að því að flug milli Eyja og Reykavíkur yrði endurreist. Sú aðkoma varð til þess að nú flýgur Flugfélag Íslands 2 ferðir á dag á flugleiðinni milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja og útlit er fyrir að þriðju ferðinni verði bætt við nú í sumar. Aðkoma ríkisins að þessu máli kostaði 75 milljónir á 10 mánaða tímabili.
  8. Nefndir hafa starfað sem fjallað hafa um framtíðarsamgöngur milli lands og Eyja og hafa þær nefndir lokið störfum og skilað niðurstöðum.
  9. Hugmynd Árna Johnsen, þáverandi alþingismanns og núverandi frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins, um gerð hafnar í Bakkafjöru, hefur verið þróuð og skoðuð. Nú liggja fyrir niðurstöður langra rannsókna og athugana Siglingastofnunnar á því máli og benda þær til að hafnargerð í bakkafjöru sé mögulegur kostur. Samgönguráðherra hefur lýst vilja sínum til að hefja þær framkvæmdir og áætlun er til staðar í þeim efnum en að beiðni Eyjamanna hefur endanlegri ákvörðun um það verið frestað. Fjármagn til þess verkefnis hefur þegar verið tryggt í 4 ára samgönguáælun sem afgreidd var af Alþingi nú í vor.
  10. Hugmynd, Árna Johnsen, þáverandi alþingismanns og núverandi frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins, um gerð jarðganga milli lands og Eyja hefur verið þróuð og skoðuð. Áhugafélagið Ægisdyr var stofnað og hefur leitt þá vinnu síðustu árin. Hugmyndin og gerð jarðganga þótti, af flestum, óraunhæf þegar henni var varpað fram í fyrstu en sú skoðun hefur vikið í æ meira mæli og flestir eru nú hlynntir því að sá möguleiki verði kannaður í þaula. Samgönguráðuneytið hefur látið framkvæma rannsóknir vegna gangagerðar sem kostuðu tugi milljóna en mikið hefur borið á milli Vegagerðar og Ægisdyra um kostnað við gangagerð. Að beiðni bæjarstjórnar Vestmannaeyja hefur Samgönguráðherra falið verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen að yfirfara fyrirliggjandi gögn vegna gangagerðar og meta þörf fyrir frekari rannsóknir og kostnað við þær. Þar til sú niðurstaða liggur fyrir verður beðið með frekari ákvarðanatöku vegna framtíðarsamganga milli lands og Eyja.

 Gleymdi Róbert að kynna sér hvað hefur verið að gerast?

Ég hef hér að framan talið upp eitthvað af þeim áföngum sem náðst hafa í bættum samgöngum milli lands og Eyja þau 16 ár sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn. Ég efast um að Róbert Marshall hafi gert sér grein fyrir því hvað hefur verið að gerast í þeim efnum en það er hollt og gott fyrir hann að kynna sér málefnið áður en að kjördegi kemur. Reyndar hefði ef til vill verið heppilegra fyrir hann að gera það aðeins fyrr og sýna málinu einhvern áhuga á undanförnum árum. Þá hefði hann ef til vill verið trúverðugri í umfjöllun sinni í dag.

Það er ótrúverðugt að hafa bara áhuga á samgöngumálum Eyjanna nú, korteri fyrir kosningar

Þó margir áfangar hafi náðst í samgöngumálum Vestmannaeyja á undanförnum árum er þó margt óunnið og mörg verkefni bíða. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi gera sér glögga grein fyrir því og hafa markað skýra stefnu í þeim málum.Í hópi frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins eru Eyjamenn sem hafa látið samgöngumál Vestmannaeyja sig miklu varða og hafa barist fyrir framförum og bótum á mörgum sviðum í þeim efnum á undanförnum árum. Ekki bara nú, rétt korteri fyrir kosningar eins og flestir frambjóðendur annarra flokka í kjördæminu, þeirra á meðal Róbert Marshall sem þrátt fyrir það hinn vænsti drengur.

Eyjamenn geta treyst því að við munum berjast áfram sem hingað til

Við Eyjamenn sem sitjum í efstu sætum á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, höfum sýnt það á undanförnum árum að við höfum áhuga á samgöngumálum Vestmannaeyja. Við höfum fjallað um þau mál og barist fyrir þeim gegnum árin og munum gera áfram, því næg verkefni bíða.  Ég trúi því að Eyjamenn treysti okkur betur en öðrum til að berjast fyrir og ná árangri í bættum  samgöngum milli lands og Eyja. Við munum halda baráttunni áfram eins og við höfum gert á undanförnum árum og ekki gleyma okkur að kosningum loknum, eins og líklegt er með aðra þá sem ekki hafa sýnt málinu mikinn áhuga þar til rétt nú í aðdraganda kosninga.Þess vegna treysti ég því að Eyjamenn fylki sér á bak við okkur og veiti okkur nauðsynlegan stuðning til árangurs með því að setja X við D á laugardaginn, því að það er mikið í húfi fyrir Vestmannaeyjar til langrar framtíðar.

Grímur Gíslason 


Er Samfylkingin með eða á móti álveri í Helguvík?

Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins vorum á Suðurnesjum sl. fimmtudag og föstudag og áttum stefnumót við kjósendur. Við heimsóttum fjölmörg fyrirtæki og hittum starfsfólk þeirra til að fara yfir stöðu mála, útlista hvað hefur áunnist og hver verða helstu áhersluatriðin á komandi kjörtímabili.

Á mörgum vinnustöðum vorum við spurð um afstöðuna til byggingar álvers í Helguvík og svöruðum því til að við við myndum styðja slíka uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu, enda væri öflugt atvinnulíf undirstaða þess að áfram verði hægt að byggja upp öflugt velferðarkerfi á Íslandi. Það vakti athygli okkar að oft var okkur sagt, í kjölfar svara okkar, að frambjóðendur Samfylkingarinnar hefðu verið á ferð á þessum sömu stöðum og oddviti þeirra í Suðurkjördæmi hefði svarað því til að Samfylkingin styddi byggingu álvers í Helguvík. Þær ætluðu ekki að vera á móti þeim verkefnum í uppbyggingu stóriðju sem þegar væri hafinn undirbúningur að!

Ekki ríma þessi svör oddvitans í Suðurkjördæmi alveg við opinbera stefnu Samfylkingarinnar í þessum efnum, því forystumenn flokksins hafa margsinnis lýst því yfir að stöðva eigi allar framkvæmdir við uppbyggingu stóriðju næstu fimm árin. Áðurnefndur oddviti í Suðurkjördæmi sagði einnig á fundi í Þingborg,  um virkjanir í neðri Þjórsá, að hann teldi að stöðva ætti frekari uppbyggingu stóriðju og var þar ekkert undanskilið. Þegar sami oddviti talar á Suðurnesjum segir hann svo allt annað og ætlar að styðja uppbyggingu stóriðju þar.

Það er svo sem ekki nýtt að Samfylkingin líkist Ragnari Reykás í skoðunum sínum varðandi virkjanir og stóriðjuuppbyggingu en það er óþolandi óheiðarleiki gagnvart kjósendum að tala tveimur tungum í þessum efnum eins og Samfylkingin gerir. Jafnvel innan sama kjördæmis er talað tungum tveim til að þóknast og geta verið sammála áheyrendum á hverjum stað.

Er ekki kominn tími til að Björgvin G. Sigurðsson, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, sýni nú heiðarleika gagnvart kjósendum og svari því hreint út hvort Samfylkingin styður eða er á móti því að álver verði reist í Helguvík?


Uppbygging virkjana og stóriðju brýnustu umhverfismálin að mati Björgvins G Sigurðssonar

BGS UmhverfismálÞað er stundum erfitt að skilja Samfylkinguna og frambjóðendur hennar. Sérstaklega á þetta þó við þegar umræðan kemur að virkjanamálum og stóriðju. Þá eru margar stefnur á lofti og mismunandi eftir kjördæmum. Hluti Samfylkingarinnar vill stopp stefnu í virkjanamálum og stóriðju. Annar hluti vill virkja og byggja upp stóriðju við Húsavík. Samfylkingarmenn fyrir austan styðja Kárahnúkavirkjun og álver í Reiðarfirði. Í Hafnarfirði þorðu Samfylkingarmenn í bæjarstjórn ekki að hafa skoðun og þar voru stuðningmenn Samfylkingarinnar klofnir í afstöðu sinni til álvers. Það er því erfitt að henda reiður á skoðanir Samfylkingarinnar í þessum efnum, þrátt fyrir fagurgala þeirra um stefnumörkun undir yfirskriftinni  "Fagra Ísland".

Björgvin G Sigurðsson, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, svarar spurningum Blaðsins í gær um ýmis málefni. Ein spurningin sem lögð var fyrir hann var um hver væru brýnustu umhverfismálin í hans kjördæmi. Svar hans er vægast sagt skemmtilegt,  en Björgvin svarar á eftirfarandi hátt: "Þau snúa almenn að uppbyggingu stóriðju og virkjunum bæði jarðhita og fallvatna. Þjórsá t.d."

Ekki er annað að skilja á svari Björgvins en að henn telji að brýnustu umhverfismálin snúist um uppbyggingu stóriðju og virkjana og tilgreinir Þjórsá sérstaklega í því sambandi.

Ég man ekki betur en að þegar ég hlustaði á Björgvin á fundi í Þingborg fyrir skömmu hafi hann verið á móti virkjunum og stóriðju. Í Blaðinu telur hann aftur á móti að brýnustu umhverfismálin snúist um að byggja upp stóriðju og virkjanir. Hver er eiginlega skoðun oddvitans í þessum efnum? Er hún bara dæmi um skoðun Samfylkingarinnar, bæði með og á móti, eftir því hvernig vindurinn blæs?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband