Færsluflokkur: Bloggar
11.3.2007 | 23:39
Möguleiki á stórskipahöfn í Bakkafjöru skoðaður
Bakkafjöruskýrslan er ofarlega í huga og verður eflaust næstu dagana. Það er af svö mörgu að taka. Mig rak eiginlega í roga stans þegar ég kom að 13 kafla skýrslunnar sem ber yfirskriftina Stórskipahöfn. Í þeim kafla kemur fram að samhliða athugun á mögulegri ferjuhöfn í Bakkafjöru hafi farið fram athuganir á byggingu stórskipahafnar í Bakkafjöru og niðurstöðurnar séu áhugaverðar! Þær sýni að gerð stórskipahafnar sé tæknilega framkvæmanleg, sandburður sé ekki vandamál, unnt sé að byggja brimvarnargarða úr grjóti, kostnaðurinn við slíka garða sé viðráðanlegur og frátafir við stórskipahöfn yrðu mun minni en við ferjuhöfn, eða um 1%
Kostnaðurinn við stórskipahöfn er áætlaður a.m.k. 16 - 19 milljarðar króna og er ekki talið að miðað við núverandi aðstæður borgi sig að fara í slíka hafnargerð en uppbygging stóriðju eða önnur aukin umsvif á Suðurlandi gætu skapað slíkan grundvöll. Reiknað er með að stórskipahöfn yrði ekki staðsett á sama stað og ferjuhöfnin. Því sé raunhæft að líta þannig á að bygging þessara hafna séu ótengdar aðgerðir.
Það er merkilegt að þetta skuli koma fram í þessari skýrslu, sérstaklega í ljósi þess að í viðtali við Sturlu Böðvarsson, samgönguráðherra, í vikublaðinu Fréttum í Eyjum sl. fimmtudag segir hann að ekki vanti fleiri hafnir á Íslandi, heldur vanti ferjulægi, og telur ráðherrann það af og frá að Eyjamenn þurfi að hafa áhyggjur af að með tíð og tíma muni verða byggð upp stærri og öflugri höfn í Bakkafjöru sem þá mundi án efa hafa veruleg áhrif á þróun byggðar og atvinnulíf í Vestmannaeyjum. "Ég vona að mönnum detti það ekki í hug," segir samgönguráðherra.
Hvað voru nefndarmenn sem skipaðir voru af þessum sama ráðherra þá að hugsa er þeir unnu að skoðun á stórskipahöfninni og fjölluðu síðan um í skýrslu sinni? Er nema von að spurt sé?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.3.2007 | 23:16
Sigling til og frá Bakkafjöruhöfn verður gegnum brimgarð og brot
Það er nokkuð merkileg lesning skýrsla stýrihóps um hafnargerð í Bakkafjöru, sem opinberuð var fyrir helgi. Ég er búinn að blaða í gegnum skýrsluna og neita því ekki að þó ýmsu sé svarað þá vakna einnig nokkrar spurningar, sem trúlega geta verið efni í marga stutta pistla. Ekki ætla ég að draga úr hæfni þeirra sérfræðinga sem um málið hafa fjallað en ljóst er að talsvert ber milli sérfræðinganna og flestra sjómanna, sem reynslu hafa af siglingum við suðurströndina og reynslan er oft ekki síðri en fræðin.
Ljóst er af lesningunni að reiknað er með að sigla í gegnum brimgarðinn og þar af leiðandi brotsjói, á leið til og frá höfn í Bakkafjöru. Ég neita því ekki að þar og þar set ég spurningarmerki við, því þó að reiknilíkön segi að öllu sé óhætt við slíkar aðstæður gæti reynslan orðið önnur.
Eitt af því sem vakti athygli mína við lesturinn var að danska verkfræðistofan COWI sem fengin var til að leggja mat á frumhönnun ferjuhafnar, rannsóknir og rannsóknarskýrslur lagði til að þegar fyrir lægju hönnunarforsendur ferjunnar færu fram tilraunir í siglingahermi, sem tækju mið af aðstæðum í hafnarmynninu þar sem tekið yrði tillit til öldu, strauma og vinds en ekki er hægt að taka mið af brjótandi öldum í hermilíkani.
Stýrihópurinn bendir á vegna þessa að ekki verði unnt að fara í siglingahermi fyrr en hönnun ferjunnar liggur fyrir. Samt er hann kominn að niðurstöðu í málinu!
Einhvernveginn segir manni nú hugur að þó ekki sé í siglingahermi hægt að taka tillit til brjótandi alda, sem án efa munu verða einn af stóru þáttunum sem horfa verður til þegar siglt verður inn í Bakkafjöruhöfn, þá hefði nú verið viturlegt að gera slíkar prófanir áður en endanlega var komist að niðurstöðu um hafnargerðina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2007 | 00:26
Samfylkingarforystan eins og vindhani á bæjarburst
Það er reyndar ekki nýtt að formaður Samfylkingarinnar snúist í skoðunum eins og vindhani á bæjarburst en málflutningur hennar í fréttum í kvöld, vegna þessa máls, getur vart talist trúverðugur. Það er enganveginn hægt að taka slíkan málflutning alvarlega. Kjósendur eru ekki fífl og láta ekki bjóða sér svona málflutning , aftur og aftur. Þess vegna hrynur fylgið af Samfylkingunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2007 | 00:04
Þá er að láta gamminn geysa
Þá er búið að klofast yfir fyrstu garðana á þessum vetvangi með því að hafa það af að setja upp síðuna og að því komið að hefja gönguna í hinum víðsjárverða heimi bloggara. Mér skilst að vart teljist nokkur alvöru maður, hvað þá alvöru stjórnmálamaður, nú til dags nema að hann bloggi. Það er því ekki um annað að ræða en að skella sér í hópinn og vera með. Hafa skoðanir á öllu og engu og láta gamminn geysa.
Ég hlakka til að vera með. Ballið er byrjað!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2007 | 22:26
Fyrsta bloggfærsla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)