11.3.2007 | 23:16
Sigling til og frá Bakkafjöruhöfn verður gegnum brimgarð og brot
Það er nokkuð merkileg lesning skýrsla stýrihóps um hafnargerð í Bakkafjöru, sem opinberuð var fyrir helgi. Ég er búinn að blaða í gegnum skýrsluna og neita því ekki að þó ýmsu sé svarað þá vakna einnig nokkrar spurningar, sem trúlega geta verið efni í marga stutta pistla. Ekki ætla ég að draga úr hæfni þeirra sérfræðinga sem um málið hafa fjallað en ljóst er að talsvert ber milli sérfræðinganna og flestra sjómanna, sem reynslu hafa af siglingum við suðurströndina og reynslan er oft ekki síðri en fræðin.
Ljóst er af lesningunni að reiknað er með að sigla í gegnum brimgarðinn og þar af leiðandi brotsjói, á leið til og frá höfn í Bakkafjöru. Ég neita því ekki að þar og þar set ég spurningarmerki við, því þó að reiknilíkön segi að öllu sé óhætt við slíkar aðstæður gæti reynslan orðið önnur.
Eitt af því sem vakti athygli mína við lesturinn var að danska verkfræðistofan COWI sem fengin var til að leggja mat á frumhönnun ferjuhafnar, rannsóknir og rannsóknarskýrslur lagði til að þegar fyrir lægju hönnunarforsendur ferjunnar færu fram tilraunir í siglingahermi, sem tækju mið af aðstæðum í hafnarmynninu þar sem tekið yrði tillit til öldu, strauma og vinds en ekki er hægt að taka mið af brjótandi öldum í hermilíkani.
Stýrihópurinn bendir á vegna þessa að ekki verði unnt að fara í siglingahermi fyrr en hönnun ferjunnar liggur fyrir. Samt er hann kominn að niðurstöðu í málinu!
Einhvernveginn segir manni nú hugur að þó ekki sé í siglingahermi hægt að taka tillit til brjótandi alda, sem án efa munu verða einn af stóru þáttunum sem horfa verður til þegar siglt verður inn í Bakkafjöruhöfn, þá hefði nú verið viturlegt að gera slíkar prófanir áður en endanlega var komist að niðurstöðu um hafnargerðina.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.