11.3.2007 | 23:39
Möguleiki á stórskipahöfn í Bakkafjöru skoðaður
Bakkafjöruskýrslan er ofarlega í huga og verður eflaust næstu dagana. Það er af svö mörgu að taka. Mig rak eiginlega í roga stans þegar ég kom að 13 kafla skýrslunnar sem ber yfirskriftina Stórskipahöfn. Í þeim kafla kemur fram að samhliða athugun á mögulegri ferjuhöfn í Bakkafjöru hafi farið fram athuganir á byggingu stórskipahafnar í Bakkafjöru og niðurstöðurnar séu áhugaverðar! Þær sýni að gerð stórskipahafnar sé tæknilega framkvæmanleg, sandburður sé ekki vandamál, unnt sé að byggja brimvarnargarða úr grjóti, kostnaðurinn við slíka garða sé viðráðanlegur og frátafir við stórskipahöfn yrðu mun minni en við ferjuhöfn, eða um 1%
Kostnaðurinn við stórskipahöfn er áætlaður a.m.k. 16 - 19 milljarðar króna og er ekki talið að miðað við núverandi aðstæður borgi sig að fara í slíka hafnargerð en uppbygging stóriðju eða önnur aukin umsvif á Suðurlandi gætu skapað slíkan grundvöll. Reiknað er með að stórskipahöfn yrði ekki staðsett á sama stað og ferjuhöfnin. Því sé raunhæft að líta þannig á að bygging þessara hafna séu ótengdar aðgerðir.
Það er merkilegt að þetta skuli koma fram í þessari skýrslu, sérstaklega í ljósi þess að í viðtali við Sturlu Böðvarsson, samgönguráðherra, í vikublaðinu Fréttum í Eyjum sl. fimmtudag segir hann að ekki vanti fleiri hafnir á Íslandi, heldur vanti ferjulægi, og telur ráðherrann það af og frá að Eyjamenn þurfi að hafa áhyggjur af að með tíð og tíma muni verða byggð upp stærri og öflugri höfn í Bakkafjöru sem þá mundi án efa hafa veruleg áhrif á þróun byggðar og atvinnulíf í Vestmannaeyjum. "Ég vona að mönnum detti það ekki í hug," segir samgönguráðherra.
Hvað voru nefndarmenn sem skipaðir voru af þessum sama ráðherra þá að hugsa er þeir unnu að skoðun á stórskipahöfninni og fjölluðu síðan um í skýrslu sinni? Er nema von að spurt sé?
Athugasemdir
Já góður punktur hjá þér Grímur, það er eiginlega komin tími til að Sturla svari fyrir sig, ekki bara í hálfkveðnum vísum. Hann er búinn að hafa sunnlendinga að fíflum of lengi.
Tómas Þóroddsson, 12.3.2007 kl. 00:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.