14.3.2007 | 09:43
Mun meiri fólksfækkun í Eyjum en á Ísafirði
Það er alltaf kraftur í Vestfirðingum og þeim liggur hátt rómur þegar vandi steðjar að enda tekur alþjóð eftir því þegar þeir hefja upp raust sína. Eðlilegar áhyggjur vegna fækkunar starfa og viðbrögð til varnar byggðinni á Ísafirði hafa komið málum á hreyfingu. Hátt kall Ísfirðinga um athygli og viðbrögð komst strax inn á borð ríkisstjórnar Íslands og full ástæða til. Vandi Ísafjarðar er vandi ýmissa jaðarsvæða á landsbyggðinni í hnotskurn. Það er flott hjá Ísfirðingum að láta í sér heyra og reyna að spyrna við fótum. Árangur næst ekki nema með baráttu, samstöðu og frumkvæði heimamanna.
Forsætisráðherra sagði í gær að Ísfirðingar hefðu hvorki notið þennslunnar vegna álversframkvæmda á austurlandi né þennslunnar á suðvestur horninu. Það er rétt hjá Geir en það sama á einnig við um fleiri jaðarsvæði eins og t.d. Vestmannaeyjar.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru 4225 íbúar á Ísafirði árið 2000 en í árslok 2006 voru þeir 4098 og hafði því fækkað um 127 eða 3%.
Samkvæmt sömu tölum voru 4522 íbúar í Vestmannaeyjum árið 2000 en í árslok 2006 voru þeir 4075 og hafði því fækkað um 447 eða tæp 10%.
Ástandið er því alls ekki betra í Eyjum en á Ísafirði og reyndar fólksfækkunin mun meiri og alvarlegri. Eyjamenn hafa því miður ennþá ekki hrópað nógu hátt eftir aðstoð til að sérstök nefnd verði sett á fót til að athuga á hvern hátt megi bregðast við þeim vanda sem að steðjar þar. Lágvært jarm heyrðist í þeim fyrir skömmu vegna ósanngjarnrar sérsköttunar á þjóðveginum til Eyja án þess að mikil viðbrögð fengjust við því. Í ljósi skjótra viðbragða við neyðarópum Ísfirðinga er rétt að spyrja hvort ekki sé kominn tími til að Eyjamenn hefji upp raust sína og krefjist viðlíkra aðgerða.
Athugasemdir
Ég get tekið undir þessa grein þína að mörgu leiti, það sem fyrst og fremst hefur heyrst frá Eyjum er að samgöngur séu ekki nógu og góðar, við höfum þó ekki getað komið okkur saman um hvaða leið sé farin þ.e.a.s. ný ferja sem siglir til Þorlákshafnar, ferjulagi á Bakkafjöru eða jarðgöng. Meðan við höfum hvert og eitt bent í sína áttina hafa ráðamenn dregið lappirnar, og í restina farið sennilega ódýrustu leiðina og allir þeir sem vilja fara aðra leið en Bakkafjöru eru ósáttir, hugsamlega 2/3 hlutar eyjamanna.
Við ættum að læra af Ísfirðingum og koma fram sem einn maður og krefjast úrbóta, ég tel að samgöngumál sé ekki það sem ætti fyrst og fremst að lagfæra hér í Eyjum, það eru atvinnumál, ef þau eru í lagi getum við farið að ræða um annað. Það eru heilu árgangarnir horfnir héðan úr Eyjum, ungt fólk fer í framhaldsnám og hefur ekki áhuga á að koma heim og fara að vinna í fiski eða að afgreiða sælgæti í gegnum sölulúgu.
Ég reikna með að það að fá hingað trjáræktarsetur sjáfarbyggða breyti litlu um atvinnumál hér hjá okkur, en þetta er þó tilraun hjá þingmanninum en ég held að hann hefði átt að beina kröftum sínum í að fá hingað avlöru störf.
Óskar P. Friðriksson.
Óskar P. Friðriksson (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 10:13
Já ég er sammála Grím og Óskar Pétri, nú er tími til að fá viðbrögð frá ríkinu jú það eru kosnigar í vor, við þurfum að spyrna við fótum með öllu krafti sem við höfum eins og alltaf í gegnum tíðinna.
Helgi Þór Gunnarsson, 14.3.2007 kl. 11:51
Ég velti því fyrir mér þegar ég heyri hrópað um óréttlæti heimsins. Er þetta staður sem ég vill búa á? Langar mig að flytja til Vestfjarða og taka þátt í grátkór? Eigum við að stofna þannig kór hérna í miðju allsnægtanna? Ef Vestfirðir væru fyritæki og forstjórarnir væru alltaf í blöðum að hrópa á hjálp og benda almenningi á hinar vonlsusu aðstæður sem fyritækið ætti við að etja, myndu þá hlutabrefin rjúka upp?
Ég sé enga ástæðu fyrir okkur Eyjamen að fara að gráta eitthvað opinberlega. Ég væri miklu frekar til í að halda fund þar sem við getum rætt kosti þess að búa í Eyjum og kannski boðið Vestfirðingum að koma bara hingað og upplifa sæluna með okkur.
Úrbætur á samgöngumálum í Vestmannaeyjum eru nú þegar farnar að skila sér í aukinni jákvæðni og rísandi verði fasteigna. Samgöngumálin eru og verða mál númer eitt hjá okkur. Til þess að gott atvinnulíf geti hér blómstrað eru góðar samgöngur algert grundvallarskilyrði.
Og trjáræktarsetur sjávarbyggða er alger snilld í mínum huga, megi fleiri slík verkefni reka á okkar fjörur.
Kv. Jarl Sigurgeirsson. Búsettur í Vestmannaeyjum. Landi tækifæranna.
Jarl Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 17.3.2007 kl. 00:25
Ekki ætla ég að gera lítið úr jákvæðni og rísandi verði fasteigna í Eyjum sem er gott mál. Aftur á móti verður að horfast í augu við staðreyndirnar og þær eru að íbúum hefur fækkað hratt í Vestmannaeyjum og það þarf að vinna hratt að því með öllum árum að snúa þeirri þróun við. Ég er sammála Jarli Sigurgeisrssyni um að tækifæri eru til sóknar í Eyjum en stundum vantar t.d. fjármagn til að nýta megi tækifærin og koma þeim í framkvæmd.
Bæjarstjórinn á Ísafirði hefur krafist þess að 100 opinber störf verði flutt vestur. Ef slíkt yrði gert hefði það gríðarleg áhrif á ekki stærra bæjarfélag en Ísafjörð. Það er líka hægt að gera sér í hugarlund hvaða áhrif það hefði í Vestmannaeyjum ef álíka fjöldi opinberra starfa kæmi til Eyja.
Það má líka velta upp hvaða áhrif það hefði á búsetu og uppbyggingu fyrirtækja í Eyjum ef gjaldskrá á þjóðveginum til Eyja yrði lækkuð og t.d. flutningsgjöld til og frá Eyjum yrðu svipuð og til annarra staða í svipaðri fjarlægð frá Reykjavík.
Það er því að mínu mati rangt að tala um grát í þessum efnum. Þetta er spurning um að þrýsta á stjórnvöld að skapa skilyrði í jaðarbyggðum til að uppbygging og efling byggðar geti orðið að veruleika. Þeir sem sitja hjá með hendur í skauti munu ekki fá neitt rétt til sín í þeim efnum. Þess vegna þarf að láta í sér heyra og berjast til árangurs. Það er hvorki vol né væl heldur merki um afl, dug og áhuga á að sækja fram á veg.
Grímur Gíslason, 17.3.2007 kl. 12:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.