15.3.2007 | 23:49
Kraftur í útgerðarmönnum í Eyjum
Nýtt skip bættist í Eyjaflotann í dag, Vestmannaey VE 444, sem er í eigu Bergs Hugins hf. Það er jákvætt fyrir byggðarlag eins og Vestmannaeyjar að eiga athafnamenn sem eru óhræddir við að horfa fram á veginn og endurnýja atvinnutækin.
Athafnalíf í Vestmannaeyjum hefur lengst af byggst á öflugu framtaki einstaklinga sem hafa verið óhræddir að ráðast í framkvæmdir. Magnús Kristinsson, útgerðarmaður, er einn þessara aðila. Hann hefur stýrt öflugu fyrirtæki í Eyjum í áraraðir og sýnir enn í verki að hann horfir fram á veginn og eflir fyrirtæki sitt sem kemur auðvitað til góða fyrir önnur fyrirtæki og íbúa í Eyjum.
Vestmannaey er fyrsta skipið, af nokkrum nýjum, sem bætast í Eyjaflotann á næstu misserum. Nýtt Gullberg kemur til hafnar í Eyjum á næstu vikum, Magnús á annað skip í smíðum í Póllandi sem kemur síðar á árinu og Þórður Rafn Sigurðsson hefur einnig gengið frá samningi um smíði á nýjum Dala Rafni í Póllandi. Það er greinilegur kraftur í útgerðarmönnum í Eyjum um þessar mundir.
Til hamingju með nýja skipið Magnús og fjölskylda.
Athugasemdir
Til hamingju Eyjamenn, ég held þetta sé byrjunin á einhverju meira.
Tómas Þóroddsson, 16.3.2007 kl. 00:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.