Stærri og öflugri ferja til siglinga milli Bakka og Eyja er lykilatriði

Bæjarrráð Vestmannaeyja fagnaði í gær niðurstöðu stýrihóps um gerð hafnar í Bakkafjöru en lagði um leið áherslu á að ný ferja, sem smíðuð verður til siglinga milli Eyja og Bakka, verði hönnuð með það í huga að hún geti siglt til Þorlákshafnar á innan við þremur tímum.

Góð og þörf bókun hjá bæjarráði því að mínu mati þurfa bæjaryfirvöld og aðrir þeir sem að undirbúningi hafnar í Bakkafjöru koma að leggja áherslu á að skip það sem smíðað verður verði öflugra og stærra en það skip sem hugmyndir eru nú um að láta hanna til siglinga á leiðinni. Ljóst er að aukinn kostnaður við stærra og öflugra skip er lítið hlutfall af heildarkostnaði verksins en getur skipt sköpum um framtíðina.

Skip það sem gert er ráð fyrir í tillögum stýrihópsins á að geta flutt 250 farþega og 50 bíla sem er of lítið. Þó að finna megii út með meðaltalsreikningum aðþ ðasé nægjanlega stórt þá er reaunin sú að í ferðum milli lands og Eyja verða alltaf álagspunktar, allt árið um kring og skipið þarf að vera gert til þess að geta tekið þessa álagspunkta. Gangi bjartsýnar áætlanir eftir munu flutningar með skipinu aukast mikið frá því sem nú er og ljótt væri að ef fyrir skammsýni í upphafi yrði ferjan fljótlega of lítil til að annast flutningana.

Hitt sjónarmiðið sem fram kemur í bókun bæjarráðs réttlætir einnig það að hannað og smíðað verði öflugra skip sem siglt getur til Þorlákshafnar ef og þegar frátafir verða frá innsiglingu til Bakkahafnar. Það er ekki ásættanlegt fyrir Eyjamenn að 3% - 4% ferða falli niður á ári því nær allar þessar ferðir verða á tímabilinu frá október og fram í mars. Frátafir í ferðum milli lands og Eyja meiga ekki verða meiri en þær eru í dag og því þarf öflugt og vel búið skip á þessari leið. Það þarf skip sambærilegt núverandi Herjólfi, með góðri aðstöðu fyrir farþega.

Ákvörðun hefur verið tekin um gerð Bakkafjöruhafnar og því þarf að vinna út frá þeirri staðreynd. Mestu skiptir að þær forsendur sem lagt verður upp með séu réttar og þar skiptir stærð og gerð ferjunnar stærstu máli. Öflugri ferja er það sem allir sem að þessu máli koma þurfa að leggja megináherslu á.

Samþykkt bæjarráðs Vestmannaeyja í gær er því gott og nauðsynlegt skref í þessum efnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll Grímur, ég er þér hjartanlega sammála um það að ef Bakkafjöruhöfn verður byggð þá verður að byggja skip sem er öflugt og vel búið fyrir farþega, þannig að það geti siglt með góðu móti til Þorlákshafnar ef ófært er í Bakkafjöru.

Sigmar Þór Sveinbjörnsson

sigmar þór Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 28.3.2007 kl. 22:50

2 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Hverig stendur á því að menn tala bara um Bakkafjöru en ekki göng ég bara spyr? Mér satt best að segja lýst ekki á Bakkafjöru höfn miða við veðrinn undafarinn ár, og þá tala ég sem reyndur sjómaður(tæp 29 ár til sjós).   Bakkafjara verið nokkuð oft ófær í vetur. Kv Helgi Þór.

Helgi Þór Gunnarsson, 29.3.2007 kl. 18:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband