12.5.2007 | 02:19
Það skiptir miklu máli fyrir Eyjamenn
Atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum er ávísun á árangur í málefnum Vestmannaeyja
Niðurstaða kosninganna á laugardaginn skiptir miklu máli fyrir Vestmannaeyjar. Það skiptir miklu máli að Sjálfstæðisflokkurinn í Suðurkjördæmi fái öfluga kosningu og fái þannig aukið vægi innan þingflokks Sjálfstæðismanna. Það mun skipta miklu fyrir Vestmannaeyinga að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram forystuafl í ríkisstjórn Íslands því að með samspili öflugs meirihluta Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn og öflugum Sjálfstæðisflokki í ríkisstjórn mun nást árangur í þeim fjölmörgu verkefnum sem bíða í Eyjum.
Bættar samgöngur lykilatriðiNiðurstaða í framtíðarsamgöngum Vestmannaeyja er á næsta leiti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur markað þá stefnu að ráðist verði í samgöngubætur á leiðinni milli lands og Eyja þegar niðurstöður varðandi möguleika á jarðgangagerð liggja fyrir. Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi höfum sett samgöngubætur við Eyjar í forgangsröð samgöngumála í kjördæminu og munum fylgja því fast eftir.Bættar samgöngur eru lykilatriði og í raun forsenda fyrir uppbyggingu á öðrum sviðum atvinnulífs og mannlífs í Eyjum. Þess vegna skiptir höfuðmáli að niðurstaða fáist í þessum efnum sem fyrst þannig að hægt verði að hefjast handa.Hver sem niðurstaðan verður varðandi framtíðarlausn er ljóst að horfa þarf til lausna í nútíð, þar til framtíðarlausn verður að veruleika, og mun ég ekki láta mitt eftir liggja í þeirri baráttu. Því get ég lofað.Sterkur hlutur Eyjamanna á lista Sjálfstæðisflokksins
Hlutur Vestmannaeyinga í forystu Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi er sterkur og öflugur. Þrír Eyjamenn eru í efstu sætum, áhrifasætum á listanum, og það mun skipta máli þegar á reynir. Við munum beita okkur af alefli til árangurs í samgöngumálum Vestmannaeyja sem og öðrum þeim málum sem horfa til varnar eða sóknar fyrir byggðarlagið. Eyjamenn vita að við höfum hingað til ekki legið á okkar afli og því síður munum við gera það á komandi árum. Við ætlum okkur að ná árangri. Við ætlum okkur að koma brýnum verkefnum í höfn. Við ætlum að vinna með íbúum í Eyjum og fyrir þá að þeim verkefnum sem fyrir liggja og upp munu koma.X við D er okkar afl til árangurs
Til þess að hafa það afl sem nauðsynlegt er til árangurs í þeirri vinnu skiptir sköpum að Eyjamenn standi þétt við bakið á okkur og styðji Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum á laugardaginn. Hvert atkvæði skiptir máli. Hvert atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum þýðir aukið afl okkur til handa í baráttunni sem framundan er. Aukið afl til sóknar og sigurs fyrir Vestmannaeyjar.Ég treysti á góðan stuðning Eyjamanna nú sem endranær.Setjum X við D og sækjum þannig saman fram í málefnum Vestmannaeyja.Grímur Gíslason
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.