Það kostar 200% meira að fara þjóðveginn til Eyja en um aðra hluta þjóðvegarins

Mótmælaalda reis í Eyjum þegar kynntar voru hækkanir á gjaldskrá Herjólfs fyrir nokkrum vikum. Efnt var til fjölmennrar mótmælastöðu og þingmenn sem ræddu málið í sölum Alþingis sögðust hafa skilning á hug Eyjamanna. Síðan fjaraði mótmælaaldan út, mótmælaraddirnar þögnuðu og stjórnmálamennirnir með. Síðan þá hefur enginn þingmaður minnst á að lækka þurfi fargjöldin hvað þá að einhverjir hafi beitt sér fyrir því af alvöru.

Herjólfur er þjóðvegurinn milli lands og Eyja og opinberlega skilgreindur sem slíkur. Þessi þjóðvegur hefur þó þá sérstöðu að þeir sem um hann fara eru skattlagðir sérstaklega en ekki er annað í boði en að greiða uppsett verð. Enginn önnur vegtenging er milli lands og Eyja.

Það skiptir miklu máli að fargjöld á þjóðveginum milli lands og Eyja verði lagfærð og lækkuð. Það er sanngjarnt og eðlilegt. Vegalengdin milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja er um 77 km. og samkvæmt því sem FÍB gefur út er aksturskostnaður við að fara þá leið nálægt 1.500 kr.

Samkvæmt gjaldskrá kostar 2.000 kr. fyrir bíl, aðra leiðina milli lands og Eyja. Sama kostar fyrir farþega á aldrinum 16 - 67 ára en 12 - 15 ára og 67 ára og eldri greiða hálft fargjald. Það kostar því 16.000 kr. fyrir fjölskyldu, hjón með tvo unglinga, að skrepa á bílnum eftir þjóðveginum til Eyja, í báðar áttir.

Hægt er að fá afsláttarfargjöld með því að leggja inn hjá rekstraraðilanum 16.400 krónur og lækkar þá ferðakostnaðurinn fyrir áðurnefnda fjölskyldu í 8.910 kr. Kostnaður fyrir áðurnefnda fjögurra manna fjölskyldu að fara þjóðveginn til Eyja er því 200% hærri en ef sama fjölskylda ekur um aðra hluta þjóðvegakerfisins.

Gjaldtaka þessi er óréttlát og óásættanleg sérsköttun á Eyjamenn og aðra landsmenn sem leggja leið sína til Vestmannaeyja. Því þarf að breyta og það þarf meira til að innantómt orðagjálfur. Það þarf athafnir en ekki bara orð í þessum efnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband