21.3.2007 | 18:09
Gott starf unnið í Alþjóðahúsi
Sat í dag, ásamt nokkrum öðrum frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins úr flestum kjördæmum, kynningarfund í Alþjóðahúsinu við Hverfisgötu. Í tilefni alþjóðlegrar viku gegn rasisma var frambjóðendum stjórnmálaflokkanna, fyrir komandi þingkosningar, boðið að heimsækja Alþjóðahúsið, kynnast starfsemi þess, heyra sýn starfsfólksins á málefni útlendinga og skiptast á skoðunum við það.
Sólveig Jónasdóttir, verkefnastjóri fræðsludeildar Alþjóðahússins fór yfir starfsemina og sýndi okkur húsnæðið en síðan komu fleiri starfsmenn til fundarins og kynntu starfsemi þeirra deilda sem þeir leiða.
Þetta var ákaflega fræðandi og ánægjulegur fundur og opnar betur sýn mína á það ágæta starf sem unnið er í Alþjóðahúsi. Greinilegt er að mikið er leitað eftir aðstoð starfsfólks ALþjóðahúss, hvort sem er til að fá túlkaþjónustu, lögfræðiþjónustu, leiðsögn hvernig á að snúa sér í hinum ýmsu málum sem og að aðstoð fólk í erfiðum málum.
Það er gott fyrir þá sem taka þátt í stjórnmálabaráttunni að hlusta á skoðanir þess fólks sem að þessu vinnur og hvernig það telur að best verði staðið að málefnum innflytjenda. Hvað þarf helst að bæta og hverju þarf að breyta. Þetta fólk þekkir málefni innflytjenda betur en margur annar. Þess vegna er vert að hlusta á skoðanir þess og tillögur
Ég er ánægður með framtak Alþjóðahússins að boða til þessarar kynningar og er viss um að sumir þeir stjórnmálamenn sem fjallað hafa um málefni innflytjenda, á ósmekklegan og óábyrgan hátt, á undanförnum mánuðum hefðu gott af að fara þangað í heimsókn og fræðast örlítið.
Takk fyrir skemmtilegan fund, starfsfólk Alþjóðahúss.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.