29.4.2007 | 17:39
Afturhaldskommar í grænum frökkum
Það hefur vakið athygli mína að hinir svokölluðu umhverfissinnar sem þykjast bera hag umhverfis svo fyrir brjósti virðast fyrst og fremst vera öfgasinnar á móti virkjanaframkvæmdum. Afturhaldssinnar sem eru á móti framþróun og nýtingu umhverfisvænnar orku.
Það er undarlegt að fylgjast með því að aðal umræða í umhverfismálum hér á landi snúist um að vera á móti virkjunum í stað þess að líta til þess umhverfisvandamáls sem er hvað stærst hér á landi, jarðvegseyðingarinnar. Í umhverfislegu tilliti væri án efa mun meiri ástæða til að berjast fyrir því að hefta jarðvegsfok og græða landið upp sem fyrst og stuðla einnig að aukinni skógrækt. Slíkt væri virkileg umhverfisstefna.
Ég velti einnig fyrir mér hvernig það getur samræmst að tala í öðru orðinu um hættuna sem steðjar að jarðarbúum vegna gróðurhúsaáhrifa en hafna um leið að vistvæn orka hér á landi sé nýtt til atvinnusköpunnar og stóriðju, sem annars myndi eiga sér stað annarsstaðar í veröldinni með fimmfallt meiri mengun en hér vegna okkar vistvænu orku. Við búum öll í sama tjaldinu. Sami lofthjúpurinn umlykur jörðina og þeir sem í raun og veru eru umhverfissinnar eiga því að horfa hnattrænt á myndina í þessum efnum.
Öfgafólki til vinstri hefur því miður á undanförnum mánuðum tekist um of að fela sig undir einhverri grænni hulu umhverfisverndar. Vinstri grænir eru í raun ekkert annað en gamaldags afturhaldskommar sem eru á móti framförum, framþróun og sjálfstæði einstaklinga til orðs og athafna. Hverjir aðrir en gamlir afturhaldskommar vilja setja á fót netlöggu? Hverjir aðrir en afturhaldskommar telja að það hafi verið ógæfuspor að einkavæða bankana? Þessum afturhaldskommum sem sækja hugsjónir sínar til gamla austursins, þar sem allt er var svart í mengun og sóðaskap eftir fyrirmyndir þeirra, reyna nú að fela sig í öfgafullum grænum skoðunum en sem betur fer geta þeir oft illa haldið aftur af sér í umræðum og þá koma gömlu rauðflöggin á loft. Ég trúi því ekki þegar á reynir að íslendingar vilji sjá gömlu afturhaldskommana við stjórnvölinn hér, jafnvel þó að þeir séu nú íklæddir grænum frökkum í aðdraganda kosninga.
Athugasemdir
Trúir þú þessu bulli í þér sjálfur?
Jóhannes Ragnarsson, 29.4.2007 kl. 17:54
Hvaða bull? Er þetta ekki bara eins og hlutirnir eru í raun. Ég get ekki séð betur og sannfærist enn frekar því oftar sem ég hlusta á grænfrakkakommana. Ég hlustaði t.d. á Ögmund í Silfrinu í dag og ekki dró það úr skoðun minni í þessum efnum.
Grímur Gíslason, 29.4.2007 kl. 22:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.