Uppbygging virkjana og stóriðju brýnustu umhverfismálin að mati Björgvins G Sigurðssonar

BGS UmhverfismálÞað er stundum erfitt að skilja Samfylkinguna og frambjóðendur hennar. Sérstaklega á þetta þó við þegar umræðan kemur að virkjanamálum og stóriðju. Þá eru margar stefnur á lofti og mismunandi eftir kjördæmum. Hluti Samfylkingarinnar vill stopp stefnu í virkjanamálum og stóriðju. Annar hluti vill virkja og byggja upp stóriðju við Húsavík. Samfylkingarmenn fyrir austan styðja Kárahnúkavirkjun og álver í Reiðarfirði. Í Hafnarfirði þorðu Samfylkingarmenn í bæjarstjórn ekki að hafa skoðun og þar voru stuðningmenn Samfylkingarinnar klofnir í afstöðu sinni til álvers. Það er því erfitt að henda reiður á skoðanir Samfylkingarinnar í þessum efnum, þrátt fyrir fagurgala þeirra um stefnumörkun undir yfirskriftinni  "Fagra Ísland".

Björgvin G Sigurðsson, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, svarar spurningum Blaðsins í gær um ýmis málefni. Ein spurningin sem lögð var fyrir hann var um hver væru brýnustu umhverfismálin í hans kjördæmi. Svar hans er vægast sagt skemmtilegt,  en Björgvin svarar á eftirfarandi hátt: "Þau snúa almenn að uppbyggingu stóriðju og virkjunum bæði jarðhita og fallvatna. Þjórsá t.d."

Ekki er annað að skilja á svari Björgvins en að henn telji að brýnustu umhverfismálin snúist um uppbyggingu stóriðju og virkjana og tilgreinir Þjórsá sérstaklega í því sambandi.

Ég man ekki betur en að þegar ég hlustaði á Björgvin á fundi í Þingborg fyrir skömmu hafi hann verið á móti virkjunum og stóriðju. Í Blaðinu telur hann aftur á móti að brýnustu umhverfismálin snúist um að byggja upp stóriðju og virkjanir. Hver er eiginlega skoðun oddvitans í þessum efnum? Er hún bara dæmi um skoðun Samfylkingarinnar, bæði með og á móti, eftir því hvernig vindurinn blæs?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dofri Hermannsson

Ósköp er þetta aulalegur útúrsnúningur Grímur. Allir sem eitthvað hafa fylgst með umræðunni vita að Björgvinn er einhver einarðasti fylgismaður friðunar Þjórsárvera, er harður á móti virkjunum í neðri Þjórsá og vill friða Brennisteinsfjöll, Langasjó, Kerlingarfjöll, Torfajökulssvæðið og Grændal svo nokkur séu nefnd.

Það er hins vegar svartara þegar kemur að ykkur sjálfstæðismönnum - hinum sönnu stóriðjusinnum og náttúrusóðum þótt ykkur gangi vel að láta Framsókn sitja eina með skömmina af því. Nú kemur í ljós að sá sem öllu stjórnar á bak við tjöldin hafði allan tímann stefnt að því að koma Norðlingaölduveitu í einhverri mynd í gegn og þar með gerið þið stækkun Þjórsárvera, sem er vilji 70% þjóðarinnar, að engu. Allt fyrir 30 álpeninga.

Ef þú hefur ekkert skárra en þessa færslu fram að færa þá held ég betur sé heima setið en af stað farið hjá þér. Þó þú sért eflaust mjög frambærilegur miðað við þá sem eru fyrir ofan þig á listanum!

Dofri Hermannsson, 2.5.2007 kl. 23:50

2 Smámynd: Grímur Gíslason

Kæri Dofri.

Þetta eru nú bara orðin hans Björgvins eins og þau voru sögð. og ekkert útúrsnúin. Ef til vill aðeins klaufalegt hjá Björgvin karlinum því kannski meinti hann eitthvað annað en hann sagði en það er hans klaufaskapur en ekki minn. Samt sem áður finnst þér ekki um að gera að hafa bara gaman af lífinu og tilverunni? Er ekki líka sjálfsagt að hafa líka gaman af kosningabaráttunni þó að auðvitað sé hún grafalvarlegt mál.

 Við Eyjamenn höfum sem betur fer húmor fyrir hlutunum og getum séð þá í því ljósi. Þess vegna njótum við augnabliksins og tækifæranna sem gefast.

Gerum lífið skemmtilegra og brosum í baráttuni. Þannnig geng ég til baráttunnar hvern dag með bros á vör og glaður í sinni.

Kosningakveðja

Grímur

P.s. Þakka þér fyrir hólið og stuðninginn, kannski verð ég ofar næst. 

Grímur Gíslason, 4.5.2007 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband