Víravegriðið á Suðurlandsvegi safnar snjó á veginn

Komst Suðurlandsveginn til vinnu í morgun þó að ég væri aðeins seinna á ferðinni en venjulega. Var kominn í Hafnarfjörðinn um kl. 11. Kolvitlaust veður á leiðinni og skyggni nánast ekki neitt. Slæmt á Hellisheiði en enn verra í Svínahrauni og á Sandskeiði.

Ég ferðast daglega á milli Selfoss og Hafnarfjarðar og er búinn að gera undanfarin ár og þetta er eitt versta veður sem ég hef lent í á leiðinni og það alversta í vetur.

Það vakti athygli mína, nú þegar kom alvöru skafrenningur, hversu fljótt hlóðst snjór á 2 + 1 veginn í Svínahrauninu. Víravegriðið á milli virtist ná að safna verulegum snjó á veginn en það er einmitt það sem margir, sem gangnrýnt hafa 2 + 1 lausnina, hafa verið að benda á  að myndi gerast ef að harðir vetur kæmu.

Þessi ferð sannaði fyrir mér að þeir sem haldið hafa slíku fram hafa talsvert til síns máls.


mbl.is Suðurlandsvegi lokað austur af Norðlingaholti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varla eykur yfirlýsing Ingibjargar Sólrúnar traust kjósenda á henni

Það er grátbroslegt að fylgjast með forystufólki Samfylkingarinar þegar það veitist nú að Morgunblaðinu trekk í trekk með órökstudduim fullyrðingum og uppspuna. Fréttaskýring Agnesar Bragadóttur um auðlindaákvæðismálið varð til þess að Ingibjörg Sólrún sendi frá sér ótrúlega yfirlýsingu þar sem hún fer með rangfærslur og heldur fram að annað innihald hafi verið í fréttaskýringunni en raun var.

Í yfirlýsingu sinni segir Ingibjörg Sólrún m.a.: "Ég vil koma þessu staðreyndum á framfæri í ljósi fréttar sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins í gær. Þar er því haldið fram að Össur Skarphéðinsson hafi efnt til fundarins "í fullkominni óþökk flestra samfylkingarmanna" eins og það er orðað." Þarna er Ingibjörg að vísa til blaðamannafundarins sem stjórnarandstaðan boðaði til vegna auðlindaákvæðisins.

Ég las fréttaskýringu Agnesar og mig rak ekki minni til að hún hafi verið að fjalla um blaðamannafundinn í umfjöllun sinni um einleik Össurar. Ég las því fréttaskýringuna aftur, og aftur en kom ekki auga á það. Í umfjöllun Agnear segir: " Formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gisladóttir, kann svila sínum Össuri Skarphéðinssyni, litlar þakkir fyrir þann einleik sem hann hefur, í nafni Samfylkingarinnar, leikið í auðlindaákvæðismálinu, í fullkominni óþökk flestra Samfylkingarmanna, samkvæmt mínum heimildum."

Á engann hátt er fjallað um blaðamannafundinn í samhengi við umfjöllunina um einleik Össurar í fréttaskýringu Agnesar og því vekja viðbrögð Ingibjargar Sólrúnar vægast sagt athygli. Fyrirsögn yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar er "Slúður á forsíðu" er því dæmalaus og ótrúlegt að reyndur stjórnmálamaður skuli hlaupa svo á sig sem raunin er.

Agnes Bragadóttir er einn af okkar reyndari blaðamönnum og er þekkt fyrir frábærar fréttaskýringar sínar í Morgunblaðinu. Hún hefur marg sýnt að hún hefur öfluga heimildarmenn víða, bæði í viðskiptalífinu sem og í stjórnmálunum. Hún hefur skrifað margar fréttaskýringar um hin ýmsu mál sem tíminn hefur oftast leitt í ljós að voru reistar á traustum heimildum. Lesendur treysta skrifum Agnesar í ljósi reynslunnar. Vindhögg Ingibjargar Sólrúnar er því aumast fyrir hana sjálfa og málatilbúnaður hennar í þessu máli skýrir ef til vill betur en margt annað hvers vegna kjósendur treysta ekki Samfylkingunni og forystu hennar.

 


Hvar eru þeir nú sem höfðu mestar áhyggjur af hækkun lána Íbúðalánasjóðs?

GlitnirAuglýsing frá Glitni var í Fréttabalaðinu í dag þar sem 90% húsnæðislán af markaðsverði eru kynnt en Glitnir hefur undanfarið kynnt þennan möguleika á heimasíðu sinni.

Það hefur vakið athygli mína að enginn sérfræðingur hefur hafið upp raust sína vegna þessara auglýsinga og talað um að þessi lán gætu sett íslenskt efnahagslíf á kaldann klakann.

Fyrir stuttu kynnti félagsmálaráðherra ákvörðun sína um að hækka lánshlutfall íbúðalánasjóðs í 90% og hámarkslán í 18 milljónir. Þá stukku fram sérfræðingar úr hverju horni og vöruðu við hættunni sem af þessu gæti stafað. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, forystumenn Alþýðusambandsins, hagfræðingar og stjórnmálamenn fjölluðu um þetta víða eins og mikil vá væri fyrir höndum.

18 milljóna hámarkslán nær í fæstum tilfellum 90% hlutfalli af brunabótamati húseigna sem sjóðurinn miðar við. Það er því í sárafáum tilfellum sem reynir á 90% lánshlutfalla sjóðsins, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu og hefur því lítil áhrif á íbúðaverð. Það eina sem hækkun lánshlutfalls og hámarkslána íbúðalánasjóðs gerir er að létta undir með fólki sem er að reyna að koma þaki yfir höfuðuð, því flestir sem standa í þeim sporum taka önnur lán á óhagstæðari kjörum, t.d. frá lífeyrissjóðum eða bönkum til að brúa bilið.  Ákvörðun félagsmálaráðherra er því einungis til bóta fyrir hinn almenna borgara og sérstaklega fyrir fólk á landsbyggðinni sem getur fengið lán til húsnæðiskaupa því bankarnir eru ekki áfjáðir í að lána mikið til húsnæðiskaupa þar sem líkur eru til að markaðsverð geti allt eins lækkað eins og hækkað .

Það er aftur á móti líklegt að lán þau sem Glitnir auglýsir nú geti haft mikil áhrif á markaðinn og þess vegna efnahagsástand og verðbólgu. Þrátt fyrir það korrar ekki í neinum yfir því og þeir sem æptu og skræktu vegna ákvöðrunar ráðherrans halda sig alveg til hlés núna og minnast ekki einu orði á hvaða áhrif þetta geti haft á efnahagslífið. Það skildi þó ekki vera að það hafi verið aðrir hagsmunir en hagsmunir almennings sem hvöttu menn áfram í þeirri umræðu. Er nema vonn að spurt sé?


Betra fyrir samgönguráðherra að taka bara af skarið

Ekki virðist ákvörðun samgönguráðherra, að láta óháða aðila fara yfir þær rannsóknir sem gerðar hafa verið vegna hugsanlegrar jarðgangnagerðar milli lands og Eyja, ætla að sætta þau mismunandi sjónarmið sem uppi hafa verið vegna þessa. Það er kannski ekki að undra miðað við þær yfirlýsingar sem fylgdu í kjölfar ákvörðunarinnar.

Í viðtali í vikublaðinu Fréttum í Eyjum sagðist samgönguráðherra sjá gangagerð einhversstaðar í blámóðu framtíðiarinnar en hann vonaðist til að fá vinnufrið með því að láta óháðan aðila fara yfir fyrirliggjandi gögn um málið og áfram yrði keyrt á fullu á hafnargerð í Bakkafjöru. Ljóst er af þessu að engu skiptir hver niðurstaða þessarar yfirferðar verður og samkvæmt því sem Ingi Sigurðsson, formaður Ægisdyra áhugafélags um jarðgöng milli lands og Eyja, segir í Fréttum þá er ekki líklegt að ákvörðun ráðherrans færi menn neitt nær því markmiði að kveða upp úr um hvort göng er raunhæfur og framkvæmanlegur kostur og hver kostnaðurinn við slíka framkvæmd gæti hugsanlega orðið.

Það hefur ekkert að segja að eyða tíma og peningum í að fara yfir fyrirliggjandi gögn ef það færir menn ekkert nær trúverðugri niðurstöðu í þessu máli. Það hefur heldur ekkert að segja að fá einhverja nýja niðurstöðu ef fyrir liggur að hún mun engu breyta um þau áform sem uppi eru, að framtíðarsamgöngulausn milli lands og Eyja felist í hafnargerð í Bakkafjöru.

Ef það er reyndin þá á ráðherrann bara að segja það hreint út, þannig að menn geti hætt að velta fyrir sér möguleikanum á göngum. Það er vitleysa að láta fara í vinnu við yfirferð fyrirliggjandi gagna um gangagerð ef ljóst er fyrirfram að það skilar mönnum ekkert nær niðurstöðu. Enn meiri vitleysa er þó að fara í slíka úttekt ef fyrirfram er búið að ákveða að sú niðurstaða mun engu breyta um framtíðaráform varðandi samgöngur til Eyja, fyrr en einhverntímann í blámóðunni. Það er miklum mun betra að taka bara af skarið en að standa í einhverjum leikaraskap í þessum efnum.


Kraftur í útgerðarmönnum í Eyjum

VestmannaeyNýtt skip bættist í Eyjaflotann í dag, Vestmannaey VE 444, sem er í eigu Bergs Hugins hf. Það er jákvætt fyrir byggðarlag eins og Vestmannaeyjar að eiga athafnamenn sem eru óhræddir við að horfa fram á veginn og endurnýja atvinnutækin.

Athafnalíf í Vestmannaeyjum hefur lengst af byggst á öflugu framtaki einstaklinga sem hafa verið óhræddir að ráðast í framkvæmdir. Magnús Kristinsson, útgerðarmaður, er einn þessara aðila. Hann hefur stýrt öflugu fyrirtæki í Eyjum í áraraðir og sýnir enn í verki að hann horfir fram á veginn og eflir fyrirtæki sitt sem kemur auðvitað til góða fyrir önnur fyrirtæki og íbúa í Eyjum.

Vestmannaey er fyrsta skipið, af nokkrum nýjum, sem bætast í Eyjaflotann á næstu misserum. Nýtt Gullberg kemur til hafnar í Eyjum á næstu vikum, Magnús á annað skip í smíðum í Póllandi sem kemur síðar á árinu og Þórður Rafn Sigurðsson hefur einnig gengið frá samningi um smíði á nýjum Dala Rafni í Póllandi. Það er greinilegur kraftur í útgerðarmönnum í Eyjum um þessar mundir.

Til hamingju með nýja skipið Magnús og fjölskylda.


Verður innsiglingin í Bakkafjöruhöfn þessu lík?

Mynd í ólgusjóÞar sem ég hef undanfarið verið að lesa í gegnum skýrslu Stýrihóps um hafnagerð í Bakkafjöru, þá vakti myndin af Mörtu Ágústsdóttur GK, sem prýddi forsíðu Morgunblaðsins á þriðjudaginn, sérstaka athygli mína.

Þeir sem gagnrýna hvað mest hafnargerð í Bakkafjöru hafa t.d. bent á þá staðreynd að ráðgert er að ferjan milli Bakka og Eyja sigli gegnum brot á leið sinni til og frá Bakkafjöruhöfn og slík sigling sé alltaf hættuspil.

Vonandi reynast vísindamennirnir sannspáir hvað varðar Bakkafjöruhöfn og áhyggjur sjómanna sem til þekkja við suðurströndina reynist óþarfar. Það má einnig vel vera að brotskaflarnir verði minni á sandrifinu utan við Bakkafjöruhöfn en þeir eru við innsiglinguna í Grindavík en það fer óneitanlega hrollur um mann að hugsa til þess að sjá farþegaferjuna í sömu stellingum við innsiglingu til Bakka og Mörta GK var í á myndinni í Morgunblaðinu


Mun meiri fólksfækkun í Eyjum en á Ísafirði

Það er alltaf kraftur í Vestfirðingum og þeim liggur hátt rómur þegar vandi steðjar að enda tekur alþjóð eftir því þegar þeir hefja upp raust sína. Eðlilegar áhyggjur vegna fækkunar starfa og viðbrögð til varnar byggðinni á Ísafirði hafa komið málum á hreyfingu. Hátt kall Ísfirðinga um athygli og viðbrögð komst strax inn á borð ríkisstjórnar Íslands og full ástæða til. Vandi Ísafjarðar er vandi ýmissa jaðarsvæða á landsbyggðinni í hnotskurn. Það er flott hjá Ísfirðingum að láta í sér heyra og reyna að spyrna við fótum. Árangur næst ekki nema með baráttu, samstöðu og frumkvæði heimamanna.

Forsætisráðherra sagði í gær að Ísfirðingar hefðu hvorki notið þennslunnar vegna álversframkvæmda á austurlandi né þennslunnar á suðvestur horninu. Það er rétt hjá Geir en það sama á einnig við um fleiri jaðarsvæði eins og t.d. Vestmannaeyjar.  

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru 4225 íbúar á Ísafirði árið 2000 en í árslok 2006 voru þeir 4098 og hafði því fækkað um 127 eða 3%.

Samkvæmt sömu tölum voru 4522 íbúar í Vestmannaeyjum árið 2000 en í árslok 2006 voru þeir 4075 og hafði því fækkað um 447 eða tæp 10%.

Ástandið er því alls ekki betra í Eyjum en á Ísafirði og reyndar fólksfækkunin mun meiri og alvarlegri. Eyjamenn hafa því miður ennþá ekki  hrópað nógu hátt eftir aðstoð til að sérstök nefnd verði sett á fót til að athuga á hvern hátt megi bregðast við þeim vanda sem að steðjar þar. Lágvært jarm heyrðist í þeim fyrir skömmu vegna ósanngjarnrar sérsköttunar á þjóðveginum til Eyja án þess að mikil viðbrögð fengjust við því. Í ljósi skjótra viðbragða við neyðarópum Ísfirðinga er rétt að spyrja hvort ekki sé kominn tími til að Eyjamenn hefji upp raust sína og krefjist viðlíkra aðgerða.


Steingrímur J. á flótta undan eigin orðum

Mér fannst Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, hálf brjóstumkennanlegur á Alþingi í dag þegar saumað var að honum vegna orða sem hann lét falla í fyrra um virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Steingrímur sem vanur er að krefjast hreinna svara frá pólitískum andstæðingum sínum er nú á flótta og hrekst, hvað eftir annað, undan í umræðunni á Alþingi án þess að svara. Hann virðist hreinlega ekki geta viðurkennt ummæli sín um góða virkjunarkosti í Þjórsá og alls ekki gefið skýringar á hver svegna hann hefur tekið nýjan pól í hæðina í þeim efnum og er nú mótfallinn virkjunum í neðri Þjórsá.

Já það liggur bara við að maður hálf vorkenni karlinum, eða þannig!


Lífræn framleiðsla eða álver í hvert sveitarfélag?

Það var merkilegt að hlusta á þær Sigríði Andersen og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur í Íslandi í bítið í morgun. Þær skiptust á skoðunum um nokkur mál en það sem mesta athygli mína vakti var hvað vel greind manneskja, eins og Guðfríður Lilja, virðist hafa blindast af álheilkenninu sem heltekið hefur svo marga félaga VG. Þegar Guðfríður náði að tengja saman umræðuna um lækkun skattlagningar á sætindi og raforkusölu til álframleiðslu og lét það síðan út úr sér að Sjálfstæðisflokkurinn vildi koma álveri í hvert sveitarfélag landsins varð ég nánast forviða. Hvað í ósköpunum getur komið fólki til að láta slíkt bull út úr sér? Það er mikill munur á því hvort verið er að athuga möguleikann á því að reisa tvö álver á næstu árum eða hvort skella á þeim niður í hvert sveitarfélag. Þeir sem tala á þennan hátt ætlast varla til að vera teknir alvarlega. Þeir hljóta að vera haldnir einhverskonar áleitrun!

Annað sem vakti athygli mína í umræðunni voru orð Guðfríðar Lilju um að nýta ætti þá raforku sem við hefðum hér til lífrænnar framleiðslu grænmetis í stað þess að selja orkuna til álframleiðslu.

Ekki veit ég hvort Guðfríður eða aðrir VG frambjóðendur hafa látið gera úttekt á þessari hugmynd. Er þó frekar efins um það. En ef að skapa má sömu útflutningstekjur fyrir okkur íslendinga með lífrænni framleiðslu grænmetis í stað álbræðslu er það stórkostlegt tækifæri fyrir okkur og er ég þess fullviss að allir stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir eru, munu styðja greiða götu slíkrar framleiðslu.

Trúlegt finnst mér þó að tækifærið sé ekki eins stórt og Guðfríður Lilja lét að liggja í morgun því ótrúlegt finnst mér annað en að margir væru komnir af stað í slíka framleiðslu væru tækifæri útflutningstekna sambærileg og með álvinnslunni. Kannski var þetta bara svona venjuleg upphrópun sem ekkert var á bak við frekar en margt annað sem slegið er fram í órökstuddri og ómálefnalegri umræðu um rekstur álvera hér á landi þessa dagana. Hver veit? 


Jafnréttisbarátta og kynjakvóti

Ég velti stundum fyrir mér umræðunni um jafnréttið og hvað hún er stundum sjálfhverf, eða kannski er réttara að segja einhverf. Ég vil reyndar taka það fram, til að koma í veg fyrir allan misskilning, að ég er mikill jafnréttissinni og tel að konur og karlar eigi að standa jafnfætis á öllum sviðum. Kynbundinn launamunur eigi engann rétt á sér og það eigi á engann hátt að horfa til kyns við ráðningar í stöður eða skipun nefnda og ráða. Fólk á að meta af hæfileikum þeirra, menntun og dugnaði, punktur.

Mér dytti ekki til hugar að greiða konu sem starfaði hjá mér í sambærilegu starfi og karlmaður lægri laun en karlinum. Ef ég teldi hana betri og hæfari starfskraft fengi hún eflaust betri laun. Það er hinn eðlilegasti háttur. Ég er því alls ekki sammála þeim skoðunum að sú aðgerð að aflétta launaleynd muni endilega verða konum til gagns og er mótfallin hugmyndum um afnám launaleyndar.

Við meigum ekki alveg missa okkur í umræðunni og aðgerðum í svonefndum jafnréttismálum. og hugmyndir um lögbindingu jafnrar kynjaskiptingar á Alþingi og í stjórnum fyrirtækja eru vægast sagt arfavitlausar. Ef fara á út á þá braut er þá ekki rétt, til að gæta alls jafnræðis, að setja einnig lög um að það verði að vera jafn margir samkynhneygðir og gagnkynhneygðir á þingi og í stjórnum fyrirtækja, jöfn aldursdreifing og svo fram eftir götunum.  Hugmyndir í þessa átt eru full mikið farnar að nálgast hámark forræðishyggjunnar.

Ég hef stundum velt því fyrir mér að í þessari jafnréttisumræðu þegar hvað hæst lætur í t.d. hvað varðar vel launuð störf og stjórnun hvers vegna ekki hefur orðið einhver hasarbylgja þar sem þess er krafist að fjölga verði konum í sjómannastétt. Sjómenn hafa velflestir ágætislaun, margir meira að segja rífandi laun, og þær konur sem lagt hafa fyrir sig sjómennskuna fá nákvæmlega sama hlut og karlarnir, gegni þær sömu stöðu. Samt virðast þær ekki sækja stíft í slíka vinnu. Hvers vegna verður maður ekkert var við að áhuga og umræðu um að ná fram jafnri kynjaskiptingu í þessu starfi þar sem tekjumöguleikar eru virkilega góðir oft á tíðum. Hvers vegna er ekki krafist kynjakvóta þar? Snýst jafnréttisbaráttan kannski bara um að koma á jafnri kynjaskiptingu sumstaðar en  annarstaðar ekki? Spyr sá sem ekki veit. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband