Samfylkingin telur bættar samgöngur við Eyjar ekki eitt af brýnustu samgöngumálum Suðurkjördæmis

Það er afar athyglisvert að lesa svör oddvita framboðanna i Suðurkjördæmi við spurningum Blaðins, sem eru í sérstöku kosningablaði Blaðsins í dag. Tíu spurningar eru lagðar fyrir oddvitana um hin ýmsu mál sem framboðin leggja áherslu á fyrir komandi kosningar.BGS Samgöngur 2

Það vakti sérstaka athygli mína að lesa svör Björgvins G. Sigurðssonar, oddvita Samfylkingarinnar, um hver væru brýnustu samgöngumálin í kjördæminu. Í svari sínu við þeirri spurningu segir Björgvin: "Tvöföldun Suðurlandsvegar, brú yfir Hvítá, Gjábakkavegur, einbreiðar brýr, brú yfir Hornafjarðarfljót, Suðurstrandarvegur og uppbygging safn- og tengivega."

Punkur og basta, ekkert fleira sem vert er að hafa orð á að mati oddvitans!

Það er sérstaklega athyglisvert að sjá að Björgvin, og þar með Samfylkingin í Suðurkjördæmi, leggja ekki sérstaka áherslu á bættar samgöngur við Vestmannaeyjar. Að minnsta kosti eru úrbætur í þeim efnum ekki ofar í huga oddvita þeirra en það að hann minnist ekki einu orði á samgöngubætur milli lands og Eyja þegar hann er spurður um samgöngumál í Suðurkjördæmi.

Það er ekki nóg að muna bara eftir að minnast á bættar samgöngur við Vestmannaeyjar þegar skrifað er í Eyjablöðin eða talað beint til Eyjamanna en gleyma þeim svo þess á milli. Það að oddviti Samfylkingarinnar skuli ekki muna eftir að minnast á að úrbætur í samgöngumálum Eyjamanna þegar hann er spurður um brýnustu samgöngumálin í kjördæminu segir allt um áhuga hans og Samfylkingarinnar að vinna af krafti að þeim málum.

Þetta er enn athyglisverðara í ljósi þess að oddvitar allra annarra framboða í Suðurkjördæmi sjá ástæðu til að minnast á að úrbætur í samgöngum milli lands og Eyja sé eitt brýnasta samgöngumálið í Suðurkjördæmi.

Það er vert fyrir Eyjamenn að hafa þetta í huga þegar þeir ganga að kjörborðinu 12. maí n.k. Oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi  opinberar það með svörum sínum að hann hefur engann áhuga á að bæta vinna að bættum samgöngum milli lnds og Eyja. Allt tal Samfylkingarinnar í þeim efnum hlýtur því hér eftir að hljóma sem innantómt raup og blaður í eyrum Eyjamanna og annarra sem vilja sjá úrbætur í samgöngum milli lands og Eyja sem fyrst.


Afturhaldskommar í grænum frökkum

Það hefur vakið athygli mína að hinir svokölluðu umhverfissinnar sem þykjast bera hag umhverfis svo fyrir brjósti virðast fyrst og fremst vera öfgasinnar á móti virkjanaframkvæmdum. Afturhaldssinnar sem eru á móti framþróun og nýtingu umhverfisvænnar orku.

Það er undarlegt að fylgjast með því að aðal umræða í umhverfismálum hér á landi snúist um að vera á móti virkjunum í stað þess að líta til þess umhverfisvandamáls sem er hvað stærst hér á landi, jarðvegseyðingarinnar. Í umhverfislegu tilliti væri án efa mun meiri ástæða til að berjast fyrir því að hefta jarðvegsfok og græða landið upp sem fyrst og stuðla einnig að aukinni skógrækt. Slíkt væri virkileg umhverfisstefna.

Ég velti einnig fyrir mér hvernig það getur samræmst að tala í öðru orðinu um hættuna sem steðjar að jarðarbúum vegna gróðurhúsaáhrifa en hafna um leið að vistvæn orka hér á landi sé nýtt til atvinnusköpunnar og stóriðju, sem annars myndi eiga sér stað annarsstaðar í veröldinni með fimmfallt meiri mengun en hér vegna okkar vistvænu orku. Við búum öll í sama tjaldinu. Sami lofthjúpurinn umlykur jörðina og þeir sem í raun og veru eru umhverfissinnar eiga því að horfa hnattrænt á myndina í þessum efnum.

 Öfgafólki til vinstri hefur því miður á undanförnum mánuðum tekist um of að fela sig undir einhverri grænni hulu umhverfisverndar. Vinstri grænir eru í raun ekkert annað en gamaldags afturhaldskommar sem eru á móti framförum, framþróun og sjálfstæði einstaklinga til orðs og athafna. Hverjir aðrir en gamlir afturhaldskommar vilja setja á fót netlöggu? Hverjir aðrir en afturhaldskommar telja að það hafi verið ógæfuspor að einkavæða bankana? Þessum afturhaldskommum sem sækja hugsjónir sínar til gamla austursins, þar sem allt er var svart í mengun og sóðaskap eftir fyrirmyndir þeirra, reyna nú að fela sig í öfgafullum grænum skoðunum en sem betur fer geta þeir oft illa haldið aftur af sér í umræðum og þá koma gömlu rauðflöggin á loft. Ég trúi því ekki þegar á reynir að íslendingar vilji sjá gömlu afturhaldskommana við stjórnvölinn hér, jafnvel þó að þeir séu nú íklæddir grænum frökkum í aðdraganda kosninga.

 


Sérstakur fundur um virkjanir í neðri Þjórsá

Ég fór á fund sem Sól á Suðurlandi boðaði til á Þingborg í gær vegna virkjana í neðri Þjórsá. Fulltrúar allra framboða í Suðurkjördæmi sátu á palli, skiptust á skoðunum og svöruðu spurningum umræðustjórnenda en einnig var svarað spurningum úr sal. Þessi fundur var vægast sagt sérstakur um margt og samsetning fundargesta var afar sérstök. Mér taldist til að milli 70 og 80 gestir hafi setið fundinn, ekki 100 eins og sagt var í fréttum ríkisútvarpsins, og flestir þeirra voru greinilega úr röðum Vinstri Grænna, merktir í bak og fyrir og klöppuðu í takti þegar foringi þeirra hafði mælt eitthvað.

Miðað við þá umfjöllun sem virkjanir í neðri Þjórsá hafa fengið í fjölmiðlum og þá miklu meintu andstöðu við virkjunina sem mikið hefur verið fjallað um, furðaði ég mig á að skyldu fleiri mæta til fundarins. Reyndar furðaði ég mig einnig á því hversu fátt var á fundinum í ljósi þess að greinilegt var að Vinstri Grænir höfðu smalað sínu fólki á fundinn og miðað við að þarna var á ferðinni helsta baráttuál Vinstri Grænna í kjördæminu. Er það kannski vísbending um að fylgi þeirra í kjördæminu sé ofmetið í könnunum? Það er full ástæða til að velta þeirri spurningu fyrir sér.

Það vakti líka athygli mína hversu fáir frambjóðendur í framvarðasveit Suðurkjördæmi voru mættir til að fylgjast með umræðunum en ég held að við Sjálfstæðismenn höfum átt ágætt hlutfall þar, því við Kjartan Ólafsson sátum allan fundinn og fylgdumst með.

Bjarni Harðarson, fulltrúi Framsóknar, lýsti sig andvígan virkunum og einnig staðfesti hann ágreining milli sín og Guðna Ágústssonar um þetta mál en Guðni hefur lýst þeirri skoðun að virkjanir í neðri Þjórsá séu góður kostur. Líklegt er að Bjarni hafi verið látinn sitja fundinn, en ekki oddvitinn Guðni, þar sem hann gæti leyft sér að vera sammála fundarmönnum og það væri hentugra fyrir Framsóknarflokkinn í þessu tilfelli.  

Umræðustjórnin sem var í höndum þjóðþekktra sjónvarpsfréttamanna, G. Péturs Matthíassonar og Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur,  vakti einnig athygli mína því það virtist ekki vera sama hver talaði og um hvað. Bjarni Harðarson var t.d. stoppaður tvívegis í því að svara því sem Atli Gíslason, Vinstri Grænn, hafi sagt og þegar Bjarni ætlaði að benda á tvískinnung Steingríms J. Sigfússonar í umræðunni um virkjanir í neðri Þjórsá var hreinlega slökkt á honum.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, benti á að umræðan um virkjanir í neðri Þjórsá væri vart tímabær nú, því eftir að íbúar í Hafnarfirði höfnuðu stækkun álversins í Straumsvík væri óvíst með kaupanda að þeirri orku sem framleidd yrði í neðri Þjórsa og ef ekki væri kaupandi að orkunni yrði ekki virkjað. Það væri því rétt að sjá til um framvindu mála næstu ár og umræðan vart tímabær. Árni vísaði einnig á bug öllum ásökunum um eignarnám á landi því ekkert slíkt væri í farvatninu. Umræðan um eignarnám hefði einungis verið spiluð upp af Samfylkingunni í pólítískum tilgangi án nokkurrar ástæðu

Það var um margt fróðlegt og skemmtilegt að sitja svo sérstakan fund. Fund sem minnti helst á nokkurskonar trúarsamkomu virkjanaandstæðinga. Mun gagnlegra fyrir fundinn og málefnið hefði verið ef bæði virkjanasinnar og andstæðingar hefðu mætt til fundarins og fram hefðu komið mismunandi sjónarmið um málefnið. Það er aldrei til hagsbóta fyrir umræðu sem þessa að hafa hana einslita og á einn veg. Það eru tvær hliðar á flestum málum.

Umræða um virkjunarmál má ekki verða að einhverskonar trúarofstækisumræðu. Það ber að ganga af virðingu um landið, meta kosti og galla þeirra virkjanamöguleika sem fyrir hendi eru og taka ákvarðanir út frá því. Við verðum að horfa fram á veg og nýta okkar náttúruauðlindir, þar með talin fallvötnin, og ræða virkjunarkosti á skynsamlegan hátt, án ofstækis og ofsatrúar í þeim efnum. Þannig munum við ná árangri til framtíðar bæði hvað varðar verndun lands og til hagsbóta fyrir efnahagslíf okkar og velferð.


Góð sigling á Sjálfstæðisflokknum

Aftur af stað eftir smá hlé. Vinnuferð erlendis og tímaleysi til skrifa samhliða því en nú er að ná upp dampi á ný og halda áfram á þessum vetvangi. Reyndar er ég kominn á kaf í kosningabaráttuna, fyrir komandi þingkosningar, með félögum mínum í Suðurkjördæmi og er farinn að þeytast milli staða með öðrum frambjóðendum til funda með kjósendum.

En þá er að koma sér í skriftagírinn. Af nógu er að taka enda kosningarnar á næsta leyti. Bara tvær vikur þar til við höfum niðurstöðu kosninganna á borðinu og hvert stefnir á næstu árum.

Það er góð sigling á Sjálfstæðisflokknum um þessar mundir samkvæmt könnunum enda ekki að undra sökum sterkrar málefnastöðu og skynsamlegra og hófstilltra loforða í kosningabaráttunni.

Stjórnarandstaðan á í miklum vandræðum með að finna höggstað á Sjálfstæðisflokknum. Það má heita ótrúlegt að eftir svo langan tíma í stjórnarandstöðu skulu þeir flokkar vera í vandræðum með að berja á Sjálfstæðisflokknum en segir mest til um það hversu vel hefur tekist til við stjórn landsins á undanförnum árum. Auðvitað má alltaf gera betur og verkefnin verða trúlega alltaf næg en það er engum blöðum um það að flétta að ótrúlegur árangur hefur náðst. Hagvöxtur hefur aukist, kaupmáttur hefur aukist, skattat hafa verið lækkaðir, barnabætur hafa verið hækkaðar, framlög til málefna eldri borgara hafa verið aukin og svo mætti lengi telja.

Kjóendur vita hvaða árangur hefur náðst á undanförnum árum undir forystu Sjálfstæðisflokksins og þeir vita að þeir geta treyst Sjálfstæðisflokknum til áframhaldandi árangurs og góðra verka. Þess styðja flestir kjósendur Sjálfstæðisflokkinn.


Glæsilegt hjá útgerð Gullbergs VE

Gullberg VEEnn bættist í flota Eyjamanna þegar Gullberg VE 292 sigldi til heimahafnar í Eyjum í gær. Kraftur í útgerðarmönnum í Eyjum er mikill um þessar mundir og greinilegt að þeir ætla að sækja fram á veg, sem mun til lengri tíma efla og styrkja byggð í Eyjum.

Útgerð Gullbergs er ein af rótgrónu einstaklingsútgerðunum sem hefur gert út í áraraðir frá Eyjum. Útgerðin seldi uppsjávarveiðiskipið Gullberg til Vinnslustöðvarinnar á síðasta ári og ákvað að söðla um í útgerðarmynstri, hverfa frá veiðum á uppsjávarfiski og snúa sér að bolfiskveiðum í botnvörpu. Hóf útgerðin að leita að skipi sem henta myndi fyrir slíkt útgerðarmynstur og afrakstur þess er nýja Gullbergið sem nú er komið í heimahöfn í Eyjum.

Það er mikilvægt byggðarlagi eins og Vestmannaeyjum að eiga í sínum röðum athafnafólk sem horfir fram á veg og fjárfestir á nýjan leik í útgerð eftir að hafa selt skip og aflaheimildir í stað þess að taka fjármuni út úr greininni og þar með veikja undirstöður atvinnulífs í Vestmannaeyjum. Það er virkileg ástæða til að hrósa þeim sem hugsa og vinna á þann hátt.

Ég óska eigendum Gullbergs til hamingju með nýtt skip. 


Ástæða til að hrósa menntamálaráðherra fyrir ferðasjóðinn

Samþykkt ríkisstjórnar Íslands á tillögu menntamálaráðherra í gær, um að í gær um að koma á fót ferðasjóð til að lækka ferðakostnað íþróttafélaga, er mikið fagnaðarefni. Samþykkt var að veita 180 milljónum á næstu 3 árum til þessa verkefnis og mun ÍSÍ setja reglur og sjá um úthlutun úr sjóðnum.

Þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar er glæsilegt framtak sem mun sérstaklega koma sér vel fyrir íþróttafélög á landsbyggðinni sem mörg hver hafa verið að sligast undan ferðakostnaðinum.

 Fyrir íþróttahreyfinguna í Vestmannaeyjum hlýtur þessi samþykkt að skipta gríðarlegu máli. Í Morgunblaðinu í morgun er haft eftir formanni ÍBV að árlegur ferðakostnaður íþróttahreyfingarinnar í Eyjum sé á bilinu 30 - 40 milljónir.  Það má vel gera sér í hugarlund það mikla sjálbopðaliðastarf sem inna þarf af hendi til að afla tekna, bara til að standa straum af ferðakostnaðinum. Með tilkomu sjóðsins á eiga fjárframlög sem íþróttafélögin þurfa að leggja í ferðakostnað að lækka sem gefur þeim þá aukið svigrúm til eflingar annarar starfsemi.

Það er því full ástæða til að hrósa menntamálaráðherra og ríkisstjórninni fyrir að koma því í verk að gera ferðasjóðinn að veruleika. Svona á að afgreiða hlutina. Flott hjá þér Þorgerður Katrín.  


Stærri og öflugri ferja til siglinga milli Bakka og Eyja er lykilatriði

Bæjarrráð Vestmannaeyja fagnaði í gær niðurstöðu stýrihóps um gerð hafnar í Bakkafjöru en lagði um leið áherslu á að ný ferja, sem smíðuð verður til siglinga milli Eyja og Bakka, verði hönnuð með það í huga að hún geti siglt til Þorlákshafnar á innan við þremur tímum.

Góð og þörf bókun hjá bæjarráði því að mínu mati þurfa bæjaryfirvöld og aðrir þeir sem að undirbúningi hafnar í Bakkafjöru koma að leggja áherslu á að skip það sem smíðað verður verði öflugra og stærra en það skip sem hugmyndir eru nú um að láta hanna til siglinga á leiðinni. Ljóst er að aukinn kostnaður við stærra og öflugra skip er lítið hlutfall af heildarkostnaði verksins en getur skipt sköpum um framtíðina.

Skip það sem gert er ráð fyrir í tillögum stýrihópsins á að geta flutt 250 farþega og 50 bíla sem er of lítið. Þó að finna megii út með meðaltalsreikningum aðþ ðasé nægjanlega stórt þá er reaunin sú að í ferðum milli lands og Eyja verða alltaf álagspunktar, allt árið um kring og skipið þarf að vera gert til þess að geta tekið þessa álagspunkta. Gangi bjartsýnar áætlanir eftir munu flutningar með skipinu aukast mikið frá því sem nú er og ljótt væri að ef fyrir skammsýni í upphafi yrði ferjan fljótlega of lítil til að annast flutningana.

Hitt sjónarmiðið sem fram kemur í bókun bæjarráðs réttlætir einnig það að hannað og smíðað verði öflugra skip sem siglt getur til Þorlákshafnar ef og þegar frátafir verða frá innsiglingu til Bakkahafnar. Það er ekki ásættanlegt fyrir Eyjamenn að 3% - 4% ferða falli niður á ári því nær allar þessar ferðir verða á tímabilinu frá október og fram í mars. Frátafir í ferðum milli lands og Eyja meiga ekki verða meiri en þær eru í dag og því þarf öflugt og vel búið skip á þessari leið. Það þarf skip sambærilegt núverandi Herjólfi, með góðri aðstöðu fyrir farþega.

Ákvörðun hefur verið tekin um gerð Bakkafjöruhafnar og því þarf að vinna út frá þeirri staðreynd. Mestu skiptir að þær forsendur sem lagt verður upp með séu réttar og þar skiptir stærð og gerð ferjunnar stærstu máli. Öflugri ferja er það sem allir sem að þessu máli koma þurfa að leggja megináherslu á.

Samþykkt bæjarráðs Vestmannaeyja í gær er því gott og nauðsynlegt skref í þessum efnum.


Gott starf unnið í Alþjóðahúsi

Sat í dag, ásamt nokkrum öðrum frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins úr flestum kjördæmum, kynningarfund í Alþjóðahúsinu við Hverfisgötu. Í tilefni alþjóðlegrar viku gegn rasisma var frambjóðendum stjórnmálaflokkanna, fyrir komandi þingkosningar, boðið að heimsækja Alþjóðahúsið, kynnast starfsemi þess, heyra sýn starfsfólksins á málefni útlendinga og skiptast á skoðunum við það.

Sólveig Jónasdóttir, verkefnastjóri fræðsludeildar Alþjóðahússins fór yfir starfsemina og sýndi okkur húsnæðið en síðan komu fleiri starfsmenn til fundarins og kynntu starfsemi þeirra deilda sem þeir leiða.

Þetta var ákaflega fræðandi og ánægjulegur fundur og opnar betur sýn mína á það ágæta starf sem unnið er í Alþjóðahúsi. Greinilegt er að mikið er leitað eftir aðstoð starfsfólks ALþjóðahúss, hvort sem er til að fá túlkaþjónustu, lögfræðiþjónustu, leiðsögn hvernig á að snúa sér í hinum ýmsu málum sem og að aðstoð fólk í erfiðum málum.

Það er gott fyrir þá sem taka þátt í stjórnmálabaráttunni að hlusta á skoðanir þess fólks sem að þessu vinnur og hvernig það telur að best verði staðið að málefnum innflytjenda. Hvað þarf helst að bæta og hverju þarf að breyta. Þetta fólk þekkir málefni innflytjenda betur en margur annar. Þess vegna er vert að hlusta á skoðanir þess og tillögur

Ég er ánægður með framtak Alþjóðahússins að boða til þessarar kynningar og er viss um að sumir þeir stjórnmálamenn sem fjallað hafa um málefni innflytjenda, á ósmekklegan og óábyrgan hátt, á undanförnum mánuðum hefðu gott af að fara þangað í heimsókn og fræðast örlítið. 

Takk fyrir skemmtilegan fund, starfsfólk Alþjóðahúss.


Það kostar 200% meira að fara þjóðveginn til Eyja en um aðra hluta þjóðvegarins

Mótmælaalda reis í Eyjum þegar kynntar voru hækkanir á gjaldskrá Herjólfs fyrir nokkrum vikum. Efnt var til fjölmennrar mótmælastöðu og þingmenn sem ræddu málið í sölum Alþingis sögðust hafa skilning á hug Eyjamanna. Síðan fjaraði mótmælaaldan út, mótmælaraddirnar þögnuðu og stjórnmálamennirnir með. Síðan þá hefur enginn þingmaður minnst á að lækka þurfi fargjöldin hvað þá að einhverjir hafi beitt sér fyrir því af alvöru.

Herjólfur er þjóðvegurinn milli lands og Eyja og opinberlega skilgreindur sem slíkur. Þessi þjóðvegur hefur þó þá sérstöðu að þeir sem um hann fara eru skattlagðir sérstaklega en ekki er annað í boði en að greiða uppsett verð. Enginn önnur vegtenging er milli lands og Eyja.

Það skiptir miklu máli að fargjöld á þjóðveginum milli lands og Eyja verði lagfærð og lækkuð. Það er sanngjarnt og eðlilegt. Vegalengdin milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja er um 77 km. og samkvæmt því sem FÍB gefur út er aksturskostnaður við að fara þá leið nálægt 1.500 kr.

Samkvæmt gjaldskrá kostar 2.000 kr. fyrir bíl, aðra leiðina milli lands og Eyja. Sama kostar fyrir farþega á aldrinum 16 - 67 ára en 12 - 15 ára og 67 ára og eldri greiða hálft fargjald. Það kostar því 16.000 kr. fyrir fjölskyldu, hjón með tvo unglinga, að skrepa á bílnum eftir þjóðveginum til Eyja, í báðar áttir.

Hægt er að fá afsláttarfargjöld með því að leggja inn hjá rekstraraðilanum 16.400 krónur og lækkar þá ferðakostnaðurinn fyrir áðurnefnda fjölskyldu í 8.910 kr. Kostnaður fyrir áðurnefnda fjögurra manna fjölskyldu að fara þjóðveginn til Eyja er því 200% hærri en ef sama fjölskylda ekur um aðra hluta þjóðvegakerfisins.

Gjaldtaka þessi er óréttlát og óásættanleg sérsköttun á Eyjamenn og aðra landsmenn sem leggja leið sína til Vestmannaeyja. Því þarf að breyta og það þarf meira til að innantómt orðagjálfur. Það þarf athafnir en ekki bara orð í þessum efnum.


Samfylkingin ótrúverðug og margklofin í stóriðjumálum

Hver á að geta skilið þessa vitleysu? Hver getur haft traust á stjórnmálaflokki sem talar út og suður varðandi stóriðjumálin? Samfylkingin er á móti uppbyggingu stóriðju. Samfylkingin vill setja á framkvæmdastopp næstu árin, segir formaðurinn. Samfylkingin í Hafnarfirði er klofin í herðar niður í afstöðu sinni til stækkunnar álversins í Straumsvík. Samfylkingarfólk á austurlandi og norðausturlandi hefur verið fylgjandi stóriðjuuppbyggingu í sínum landshluta. Samfylkingin studdi á sínum tíma gerð Kárahnjúkavirkjunar. Samfylkingin í borgarstjórn studdi uppbyggingu Hellisheiðarvirkjunar. Samfylkingin er því margklofin og margsaga í þessum málaflokki. Er nema von að traustið sé lítið hjá kjósendum

Í Kastljósi í gærkvöldi var formaður Samfylkingarinnar spurður um hvernig hún myndi bregðast við niðurstöðu íbúakosningar í Hafnarfirði um stækkun álvers. Svarið var sérstakt. Ef að Hafnfirðingar hafna stækkuninni þá mun formaðurinn sætta sig við það, styðja niðurstöðuna og stækkun álversins væri þar með úr. Aftur á móti eff íbúarnir samþykkja þá formaðurinn ekki sætta sig við  þá niðurstöðu og hyggst stöðva framkvæmdina fái hún umboð til þess að afloknum þingkosningum í vor. Hvurslags lýðræði er boðað af þessu fólki? Er íbúalýðræðið bara frasi? Eða virkar það bara í eina átt, þá átt sem forysta samfylkingarinnar vill sjá. Þetta minnir nú bara á takta úr  kommúnistaríkjunum í "den".


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband