Atkvæði Eyjamanna geta ráðið úrslitum

Öflugt fylgi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi  lykilatriði til árangur fyrir Vestmannaeyjar

Það eru í raun tveir valkostir í boði í kosningunum á laugardaginn. Annars vegar sterk og kröftug stjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins eða vinstri samsteypustjórn þriggja eða jafnvel fjögurra flokka. Í boði er áframhaldandi uppgangur og velferð undir stjórn Sjálfstæðisflokksins eða óvissa, ókyrrð, skattahækkanir og versnandi lífskjör með vinstri stjórn. Þetta eru skýrir valkostir sem rétt er að kjósendur velti vel fyrir sér áður en þeir ganga að kjörborðinu á laugardaginn.Það er vissulega hætta á því, þegar kjósendur eru orðnir vanir velgangni og uppgangi, að þrengingar fortíðar gleymist. Það gleymist hvernig ástand var hér í efnahagslífi þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við valdataumum ríkisstjórnar árið 1991. Þeir sem muna þann tíma eða kynna sér hann vilja örugglega ekki snúa aftur til þess horfs sem þá var.

Hver hefði trúað því árið 1990?

Ótrúlegur árangur hefur náðst í efnahagslífinu á undanförnum árum. Staða ríkissjóðs hefur aldrei verið sterkari og skuldir hans í raun engar. Her hefði trúað því árið 1990 að slíkt gæti gerst á Íslandi?Á sama tíma og skuldir ríkissjóðs hafa verið greiddar upp hafa skattar verið lækkaðir og auknu fjármagni verið veitt í velferðarkerfið. Framlög til samgöngumála hafa verið aukin, framlög til skólamála verið aukin og framlög til menntamála verið aukin, svo eitthvað sé nefnt. Hver hefði trúað því árið 1990 að slíkt yrði einhverntímann mögulegt?

Traustur grunnur

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt það og sannað í verkum sýnum að honum er treystandi. Undir hans stjórn hefur verið byggður traustur grunnur íslensks efnahagslífs og íslensks samfélags. Grunnur sem gefur möguleika á að horfa til nýrra tíma með bjartsýni og sókn í hug. Mýmörg verkefni bíða og Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn að halda áfram á þeirri góðu braut sem rudd hefur verið. Braut hagsældar og framfara fyrir Íslendinga.

Innistæðulaus loforð sem kosta munu skattahækkanir og skuldasöfnun ríkissjóðs

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins á vinstri vængnum hafa ausið út óábyrgum loforðum nú í aðdraganda kosninganna. Loforðum án skilgreininga eða skýringa um hvernig á að fjármagna og koma í framkvæmd. Þeir boða alsherjar stöðvun framkvæmda. Stöðvun á uppbyggingu iðnaðar. Stöðvun á nýtingu auðlinda til raforkuframleiðslu. Stöðvun á aukningu útflutningstekna. Eitt alsherjar stopp í atvinnulífinu með tilheyrandi atvinnuleysi. Á sama tíma og það er boðað eru gefin loforð um aukin útgjöld ríkissjóðs á öllum sviðum. Í heilbrigðismálum, skólamálum og samgöngumálum svo eitthvað sé nefnt.Hvernig á að fjármagna og framkvæma slíkt ef á sama tíma á að stöðva hjól atvinnulífsins og þannig minnka tekjuöflun ríkissjóðs. Til þess eru einungis tvær leiðir. Gamalkunnar leiðir vinstri aflanna. Skattahækkanir á launafólk og skuldasöfnun ríkissjóðs með tilheyrandi ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir landsmenn.

Eina örugga leiðin er að setja X við D

Á laugardaginn er það í höndum kjósenda hvora leiðina þeir vilja fara. Eina leiðin til að tryggja áframhaldandi vöxt og velferð er að Sjálfstæðisflokkurinn komi öflugur út úr kosningunum. Eina trygga leiðin er að Sjálfstæðisflokkurinn verði svo öflugur að ekki verði fram hjá honum gengið við myndun næstu ríkisstjórnar.Mikill meirihluti þjóðarinnar treystir Geir H Haarde best til að gegna starfi forsætisráðherra og leiða næstu ríkisstjórn. Eina leiðin til að tryggja að Geir verði forsætisráðherra er að kjósa Sjálfstæðisflokkin í kosningunum á laugardaginn.Sameinumst um að tryggja það að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram forystuafl í ríkisstjórn Íslands. Sameinumst um það að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið, nýtum þann trausta grunn sem byggður hefur verið og horfum til sóknar og framfara á komandi árum undir forystu Sjálfstæðisflokksins.Setjum X við D á laugardaginn, til sigurs fyrir okkur öll.Grímur Gíslason

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Góðan daginn Grímur, tókst okkur ekki það sem við stemmum að? Ég held að sjálfstæðismenn geti vel við unað, ég allavega þokkalega sáttur og nú þurfa þingmennirnir okkar að bretta upp ermar.

Helgi Þór Gunnarsson, 16.5.2007 kl. 11:40

2 Smámynd: Grímur Gíslason

Jú Helgi. Takmarkið náðist.  Takmark okkar Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi var að ná inn 4 mönnum og það tókst. Sjálfstæðisflokkurionn bætti við sig 3 þingmönnum og ríkisstjórnin hélt. Ég kvarta því ekki. Rét hjá þér að nú er það þingmannanna að bretta upp ermar og taka á því og ég vona að við hin sem vermum varamannabekkinn getum einnig haft góð áhrif  í þeim efnum. Það er af nógu að taka.

Grímur Gíslason, 16.5.2007 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband