Er Samfylkingin með eða á móti álveri í Helguvík?

Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins vorum á Suðurnesjum sl. fimmtudag og föstudag og áttum stefnumót við kjósendur. Við heimsóttum fjölmörg fyrirtæki og hittum starfsfólk þeirra til að fara yfir stöðu mála, útlista hvað hefur áunnist og hver verða helstu áhersluatriðin á komandi kjörtímabili.

Á mörgum vinnustöðum vorum við spurð um afstöðuna til byggingar álvers í Helguvík og svöruðum því til að við við myndum styðja slíka uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu, enda væri öflugt atvinnulíf undirstaða þess að áfram verði hægt að byggja upp öflugt velferðarkerfi á Íslandi. Það vakti athygli okkar að oft var okkur sagt, í kjölfar svara okkar, að frambjóðendur Samfylkingarinnar hefðu verið á ferð á þessum sömu stöðum og oddviti þeirra í Suðurkjördæmi hefði svarað því til að Samfylkingin styddi byggingu álvers í Helguvík. Þær ætluðu ekki að vera á móti þeim verkefnum í uppbyggingu stóriðju sem þegar væri hafinn undirbúningur að!

Ekki ríma þessi svör oddvitans í Suðurkjördæmi alveg við opinbera stefnu Samfylkingarinnar í þessum efnum, því forystumenn flokksins hafa margsinnis lýst því yfir að stöðva eigi allar framkvæmdir við uppbyggingu stóriðju næstu fimm árin. Áðurnefndur oddviti í Suðurkjördæmi sagði einnig á fundi í Þingborg,  um virkjanir í neðri Þjórsá, að hann teldi að stöðva ætti frekari uppbyggingu stóriðju og var þar ekkert undanskilið. Þegar sami oddviti talar á Suðurnesjum segir hann svo allt annað og ætlar að styðja uppbyggingu stóriðju þar.

Það er svo sem ekki nýtt að Samfylkingin líkist Ragnari Reykás í skoðunum sínum varðandi virkjanir og stóriðjuuppbyggingu en það er óþolandi óheiðarleiki gagnvart kjósendum að tala tveimur tungum í þessum efnum eins og Samfylkingin gerir. Jafnvel innan sama kjördæmis er talað tungum tveim til að þóknast og geta verið sammála áheyrendum á hverjum stað.

Er ekki kominn tími til að Björgvin G. Sigurðsson, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, sýni nú heiðarleika gagnvart kjósendum og svari því hreint út hvort Samfylkingin styður eða er á móti því að álver verði reist í Helguvík?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband