Mistök eða fávísi Róberts Marshall?

 -Svör við spurningu Róberts um samgöngumál Vestmannaeyja

Aumt fannst mér yfirklór Björgvins G. Sigurðssonar um að niður hafi fallið setning um samgöngur til Vestmannaeyja í svari hans við spurningum Blaðsins fyrir skömmu. Þeir sem lásu svar Björgvins í Blaðinu og síðan þá romsu sem hann sendir frá sér til afsökunnar því að hann gleymdi samgöngum til Eyja, í framhaldi af umfjöllun minni um svar hans, sjá efalaust flestir í gegnum það yfirklór.Í framhaldi af þessu reit Róbert Marshall pistil á eyjar.net þar sem hann beinir til mín spurningu um það hvað Sjálfstæðisflokkurinn hafi aðhafst í samgöngumálum Vestmannaeyja sl. 16 ár. Mér er afar ljúft að svara þessari spurningu Róberts því ég hef fylgst vel með þessum málum gegnum árin og haft mikinn áhuga á þeim. Sá áhugi varð ekki til í aðdraganda komandi kosninga, eins og hjá sumum öðrum sem lítið hafa látið sig málefni Vestmannaeyja varða undanfarin áratug þar til nú er þeir eru komnir í framboð til Alþingis,  og vilja þá teljast málsvarar Eyjamanna og málefna Vestmannaeyja.Það væri fróðlegt fyrir Eyjamenn að fara t.d. yfir Eyjablöðin síðasta áratuginn til að meta hvor okkar frambjóðandanna, Sjálfstæðismaðurinn Grímur Gíslason eða Samfylkingarmaðurinn Róbert Marshall, hafa haft sýnt málefnum Vestmannaeyja og þá sérstaklega samgöngumálum Vestmannaeyja, meiri áhuga á liðnum áratug.

Hvenær vaknaði áhugi Róberts Marshall á samgöngumálum Vestmannaeyja?

Svona í framhaldi af því er kannski rétt að beina þeirri spurningu til Róberts hvenær áhugi hans á samgöngumálum til Eyja hafi kviknað og hversu oft hann hafi fjallað um þau mál á opinberum vetvangi, t.d. með greinaskrifum, áður en hann hóf atkvæðaveiðar sínar í aðdraganda prófkjörs og kosninga?

Gríðarlega margt hefur áuinnist í samgöngumálum Vestmannaeyja á 16 árum

En aftur að spurningu Róberts. Hvað hefur áorkast í samgöngumálum Vestmannaeyja sl. 16 ár, þ.e. frá því Sjálfstæðisflokkurinn tók sæti í ríkisstjórn árið 1991?  Af mörgu er að taka þegar í þeim efnum og eflaust mun ég gleyma einhverju í svari mínu hér á eftir.
  1. Árið 1992 kom núverandi Herjólfur til Eyja og tók við siglingum af forvera hans með tilkomu nýja Herjólfs var tekið stórt skerf framávið í samgöngum við Vestmannaeyjar.
  2. Byggð voru landgöngumannvirki í Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn til að skapa aðstöðu fyrir farþega Herjólfs.
  3. Á árinu 1990 sigldi Herjólfur 410 ferðir milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja. Árið 2004 fór Herjólfur 570 ferðir og ár árinu 2006 voru ferðir Herjólfs 700. Nú að undanförnu hefur meirihluti Sjálfstæðismanna í Bæjarstjórn Vestmannaeyja unnið að því að ná samkomulagi við samgönguráðuneytið um að Herjólfur fari næturferðir í sumar og er útlit fyrir að samkomulag náist um þá tilhögum sem þýðir að Herjólfur fer 740 – 750 ferðir á árinu 2007.
  4. Hratt og örugglega var brugðist við ábendingum heimamanna um að fá öflugt skip til að leysa Herjólf af  þegar hann hefur þurt að fara í slipptökur og hefur ferjan St. Ola verið leigð til þess undanfarin ár.
  5. Bakkaflugvöllur hefur verið byggður upp, lýsingu og tækjabúnaði komið upp við flugvöllinn. Árið 1991 fóru örfáir farþegar um Bakkaflugvöll. Árið voru þeir 1998 16.963 og árið 2006 fóru 28.222 farþegar um Bakkaflugvöll.
  6. Farþegaaðstaða á Bakaflugvelli hefur verið byggð upp og nú er þar bæði góð farþegaaðstaða, flugturn og aðstaða fyrir starfsfólk.
  7. Í kjölfar harðrar samkeppni á flugleiðinni milli lands og Eyja, sem til varð að áeggjan vinstri manna í bæjarstjórn Vestmannaeyja hætti Flugfélag Íslands flugi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Þessi breyting hafði alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir flugsamgöngur milli Eyja og Reykjavíkur sem varð til þess að á síðasta ári ákvað ríkisstjórn Íslands, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, að hafa aðkomu að því að flug milli Eyja og Reykavíkur yrði endurreist. Sú aðkoma varð til þess að nú flýgur Flugfélag Íslands 2 ferðir á dag á flugleiðinni milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja og útlit er fyrir að þriðju ferðinni verði bætt við nú í sumar. Aðkoma ríkisins að þessu máli kostaði 75 milljónir á 10 mánaða tímabili.
  8. Nefndir hafa starfað sem fjallað hafa um framtíðarsamgöngur milli lands og Eyja og hafa þær nefndir lokið störfum og skilað niðurstöðum.
  9. Hugmynd Árna Johnsen, þáverandi alþingismanns og núverandi frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins, um gerð hafnar í Bakkafjöru, hefur verið þróuð og skoðuð. Nú liggja fyrir niðurstöður langra rannsókna og athugana Siglingastofnunnar á því máli og benda þær til að hafnargerð í bakkafjöru sé mögulegur kostur. Samgönguráðherra hefur lýst vilja sínum til að hefja þær framkvæmdir og áætlun er til staðar í þeim efnum en að beiðni Eyjamanna hefur endanlegri ákvörðun um það verið frestað. Fjármagn til þess verkefnis hefur þegar verið tryggt í 4 ára samgönguáælun sem afgreidd var af Alþingi nú í vor.
  10. Hugmynd, Árna Johnsen, þáverandi alþingismanns og núverandi frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins, um gerð jarðganga milli lands og Eyja hefur verið þróuð og skoðuð. Áhugafélagið Ægisdyr var stofnað og hefur leitt þá vinnu síðustu árin. Hugmyndin og gerð jarðganga þótti, af flestum, óraunhæf þegar henni var varpað fram í fyrstu en sú skoðun hefur vikið í æ meira mæli og flestir eru nú hlynntir því að sá möguleiki verði kannaður í þaula. Samgönguráðuneytið hefur látið framkvæma rannsóknir vegna gangagerðar sem kostuðu tugi milljóna en mikið hefur borið á milli Vegagerðar og Ægisdyra um kostnað við gangagerð. Að beiðni bæjarstjórnar Vestmannaeyja hefur Samgönguráðherra falið verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen að yfirfara fyrirliggjandi gögn vegna gangagerðar og meta þörf fyrir frekari rannsóknir og kostnað við þær. Þar til sú niðurstaða liggur fyrir verður beðið með frekari ákvarðanatöku vegna framtíðarsamganga milli lands og Eyja.

 Gleymdi Róbert að kynna sér hvað hefur verið að gerast?

Ég hef hér að framan talið upp eitthvað af þeim áföngum sem náðst hafa í bættum samgöngum milli lands og Eyja þau 16 ár sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn. Ég efast um að Róbert Marshall hafi gert sér grein fyrir því hvað hefur verið að gerast í þeim efnum en það er hollt og gott fyrir hann að kynna sér málefnið áður en að kjördegi kemur. Reyndar hefði ef til vill verið heppilegra fyrir hann að gera það aðeins fyrr og sýna málinu einhvern áhuga á undanförnum árum. Þá hefði hann ef til vill verið trúverðugri í umfjöllun sinni í dag.

Það er ótrúverðugt að hafa bara áhuga á samgöngumálum Eyjanna nú, korteri fyrir kosningar

Þó margir áfangar hafi náðst í samgöngumálum Vestmannaeyja á undanförnum árum er þó margt óunnið og mörg verkefni bíða. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi gera sér glögga grein fyrir því og hafa markað skýra stefnu í þeim málum.Í hópi frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins eru Eyjamenn sem hafa látið samgöngumál Vestmannaeyja sig miklu varða og hafa barist fyrir framförum og bótum á mörgum sviðum í þeim efnum á undanförnum árum. Ekki bara nú, rétt korteri fyrir kosningar eins og flestir frambjóðendur annarra flokka í kjördæminu, þeirra á meðal Róbert Marshall sem þrátt fyrir það hinn vænsti drengur.

Eyjamenn geta treyst því að við munum berjast áfram sem hingað til

Við Eyjamenn sem sitjum í efstu sætum á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, höfum sýnt það á undanförnum árum að við höfum áhuga á samgöngumálum Vestmannaeyja. Við höfum fjallað um þau mál og barist fyrir þeim gegnum árin og munum gera áfram, því næg verkefni bíða.  Ég trúi því að Eyjamenn treysti okkur betur en öðrum til að berjast fyrir og ná árangri í bættum  samgöngum milli lands og Eyja. Við munum halda baráttunni áfram eins og við höfum gert á undanförnum árum og ekki gleyma okkur að kosningum loknum, eins og líklegt er með aðra þá sem ekki hafa sýnt málinu mikinn áhuga þar til rétt nú í aðdraganda kosninga.Þess vegna treysti ég því að Eyjamenn fylki sér á bak við okkur og veiti okkur nauðsynlegan stuðning til árangurs með því að setja X við D á laugardaginn, því að það er mikið í húfi fyrir Vestmannaeyjar til langrar framtíðar.

Grímur Gíslason 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grétar Ómarsson

Flott grein hjá þér Grímur, það er ágætt að minna okkur á hin ýmsu mál sem gengið hafa í gegn á síðustu 16 árum í samgöngumálum, þó tel ég að langt sé í land þar til Eyjamenn geti sætt sig við þau hlutskipti sem þeir búa við í dag. 

Ég verð að viðurkenna að ég sé ekki fyrir mér einhverjar stórvægilegar breytingar á samgöngumálum á Suðurlandinu ef svo illa fer að Ingibjörg Sólrún yrði forsætisráðherra. 

Grétar Ómarsson, 10.5.2007 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband